Innlent

Ekki útilokað að fleiri verði handteknir

Litháa á fertugsaldri er enn haldið sofandi á Landspítalanum en hann varð fyrir árás á heimili sínu síðustu nótt. Sex samlandar hans sem grunaðir eru í tengslum við málið eru enn í haldi lögreglu. Lögreglumaðurinn sem fer fyrir rannsókn málsins segir að enn sé verið að yfirheyra mennina og til greina komi að fleiri verði handteknir í tengslum við málið.

Hann segir að lögregla hafi enn ekki farið fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum en að það gæti allt eins gerst á morgun, en lögregla þarf að fara fram á gæsluvarðhaldsúrskurð 24 tímum eftir handtöku. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er verið að tala við fleiri aðila vegna málsins og ekki útilokað að fleiri verði handteknir. Þar sé einnig um að ræða útlendinga en ekki fékkst uppgefið hvort um væri að ræða fleiri Litháa.

Lögregla segir að vel hafi gengið að handtaka mennina í dag og að það hafi gerst hávaðalaust. Aðspurð hvort hún telji að mennirnir tengist skipulagðri glæpastarfsemi segir lögregla ekkert benda til þess. Mennirnir séu verkamenn sem starfi hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×