Innlent

Siv strunsar framhjá sjónvarpsmyndavélinni

Siv Friðleifsdóttir forðast að tjá sig um hvort hún sé sátt við stjórnarformannsskiptin í Landsvirkjun.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hafnar því að málið tengist átökum í flokknum heldur hafi ráðið það sjónarmið að heppilegt sé með stjórnir og ráð að skipta með hæfilegum fresti.

Eftir að Jóhannes Geir Sigurgeirsson hafði stýrt sínum síðasta stjórnarfundi í Landsvirkjun í dag var aðalfundur settur þar sem fulltrúi fjármálaráðherra, Baldur Guðlaugsson, kynnti nýja stjórn og þar með var Jóhannes Geir settur út í kuldann. Hann kveðst hafa viljað sitja ár í viðbót og viljað ljúka Kárahnjúkaverkefninu fram yfir gangsetningu virkjunarinnar. Hann kveðst enga skýringu hafa fengið á því hvers vegna hann er látinn hætta sem stjórnarformaður Landsvirkjunar.

Jóhannes Geir var ekki fyrr farinn út af fundi en Páll Magnússon gekk inn til að sitja fyrsta fund nýkjörinnar stjórnar þar sem hann var kjörinn formaður. Nýr stjórnarformaður segist hafa það vegarnesti sem framsóknarmaður að Landsvirkjun verði áfram í eigu ríkisins.

Nýr stjórnarformaður segist hafa það vegarnesti sem framsóknarmaður að Landsvirkjun verði áfram í eigu ríkisins.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að menn hafi ekki verið að kasta út stjórnarformanni. Menn hefðu einfaldlega rætt það að nú væri ástæða til að skipta út, eftir rúman áratug. Það væri þannig með stjórnir, nefndir og ráð að það væri heppilegt að skipta með hæfilegum og skynsamlegum fresti.

Heimildarmenn Stöðvar tvö segja að Siv Friðleifsdóttir hafi lent í orðasennu við bæði formann og varaformann flokksins vegna málsins í fyrradag. Þegar Stöð tvö náði tali af Siv, á göngu á leið á ársfund Landspítala háskólasjúkrahúss í dag, kvaðst hún ekkert vilja tjá sig um stjórnarformannsskiptin. Jón Sigurðsson héldi á þessu máli og það væri afgreitt. Það væri í ágætis farvegi og hún hefði engar áhyggjur af því. Spurð hvort hún væri sátt með hvernig farið hefði verið með Jóhannes Geir ítrekaði hún að að þetta væri afgreitt mál. Spurð hvort hún hefði gert athugasemdir við aðra ráðherra flokksins vegna málsins ítrekaði Siv enn og aftur, um leið og hún strunsaði í burtu frá sjónvarpsmyndavélinni, að málið væri afgreitt og Jón héldi á málinu og þetta væri ekkert til þess að hafa áhyggjur af.

Menn rifja upp hörð átök innan Framsóknarflokksins fyrir þremur árum þar sem Siv og Páll Magnússon voru taldir andstæðir pólar. Frami Páls nú er því ekki talinn Siv að skapi.

Jón Sigurðsson kveðst hins vegar ekki skynja ólgu innan flokksins vegna málsins og ekki hafa neinar fréttir af slíku. Hann geri sér þó grein fyrir að það geti verið mismunandi skoðanir á mikilvægum stjórnarpóstum í samfélaginu. Hann hefði þurft að velja í þetta starf sérstaklega með tilliti til þarfa og hagsmuna Landsvirkjunar og orkugeirans. Maðurinn sem nú hefði orðið fyrir valinu væri mjög reyndur og kunnugur á þessum vettvangi og hann treystum honum til þess. Jón sagði þetta á engan hátt tengjast ágreiningi né flokksstörfum né gagnrýni eða óánægju með störf fráfarandi formanns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×