Skoðun

Auglýst eftir efnislegu inntaki!

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 2003 um að sett verði stjórnarskrárákvæði um „sameign íslensku þjóðarinnar að fiskveiðiauðlindinni" hefur komið til umræðu síðustu daga. Hugmyndina má raunar rekja til laga um fiskveiðistjórn allt frá 1988, en einkum var það álit auðlindanefndar árið 2000 sem gaf henni byr undir báða vængi.

Nú er það ekki verkefni lögfræðinga að skipta sér af því hvaða efnisreglur eru settar í stjórnarskrá á hverjum tíma. Það heyrir hins vegar til lögfræði að útfæra stefnumið stjórnmálamanna í lagatexta þannig að tilætluð markmið þeirra náist. Í þessu sambandi er óhjákvæmilegt að benda á eftirfarandi:

Lagalega gengur það ekki upp að villt og vörslulaus dýr, þ.á m. fiskar, séu undirorpin einhvers konar einstaklingseignarrétti (eða sameignarrétti). Til að eignast villt dýr verður maður fyrst að veiða það. „Sameign þjóðarinnar" eða „þjóðareign" á nytjastofnunum getur af þessum sökum ekki vísað til „eignar", hvorki eignar einstaklinga né ríkisins.

Það sem auðvitað er fyrir mestu er hvernig nýtingarrétti á fiskveiðiauðlindinni er háttað. Í krafti almenns lagasetningarvalds (fullveldisréttar) hefur íslenska ríkið það í hendi sér hvaða reglur eru settar um nýtingu á fiskveiðiauðlindinni, eins og kvótakerfið og þróun þess sýnir best. En hvaða réttaráhrif á þá ákvæðið um „sameign þjóðarinnar" að hafa á þessar heimildir löggjafans svo og nýtingarrétt einstaklinga? Af einhverjum ástæðum hefur ekkert skýrt svar komið fram þótt tilefnið hafi lengi verið ærið.

Með stjórnarskrárákvæði um „sameign þjóðarinnar" eða „þjóðareign" er boltinn gefinn upp fyrir ágreining og illdeilur, enda getur hver sem er gefið hugtökum sem þessum merkingu eftir pólitískri vild. Slíkt ákvæði gengur því gegn því almenna markmiði laga og stjórnarskrár að skapa frið og öryggi í samfélaginu með skýrum og afdráttarlausum reglum. Það má heita nógu slæmt að „skreyta" stjórnarskrár með ýmsum lagalega marklausum stefnuyfirlýsingum, eins og nú er í tísku víða um lönd. Það keyrir um þverbak þegar setja á í stjórnarskrá ákvæði sem enginn veit hvað þýðir!

Höfundur er lögfræðingur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×