Handbolti

Aron Kristjánsson: Við getum unnið Danina

Sigurður Elvar Þórólfsson í Sevilla skrifar
Aron Kristjánsson.
Aron Kristjánsson. Mynd/Vilhelm
„Við þurfum að safna kröftum fyrir leikinn gegn Dönum. Það er mikið álag á lykilmönnum á meðan Danir hafa nánast farið létt í gegnum þetta mót hingað til. Þeir eru gríðarlega öflugir í hraðaupphlaupunum og seinni bylgjunni. Það þarf að stoppa Mikkel Hansen, hann er frábær skotmaður og finnur aðra leikmenn í kringum sig. Nikolaj Markussen hefur einnig leikið vel á þessu móti og hann er öflugur þegar öll áhersla er lögð á að stöðva Hansen," sagði Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins, eftir 23-19 sigur liðsins gegn Makedóníu á HM í gær.

Aron var ekki lengi að svara þegar hann var inntur eftir því hvort Ísland ætti möguleika gegn Dönum.

„Já, við getum unnið Danina, það verður gaman að eiga við þá. Sigurinn gegn Makedóníu mun gefa okkur kraft og losar um pressu á liðinu. Við getum mætt áhyggjulausir í leikinn því þeir eru taldir vera sterkasta liðið á þessu móti. Viljinn þarf að vera til staðar hjá okkur gegn Dönum og okkur langar að leggja þá að velli," bætti Aron við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×