Innlent

Annþór í sjö ára fangelsi - Börkur í sex ára

Annþór Kristján Karlsson var í dag dæmdur í sjö ára fangelsi og Börkur Birgisson í sex ára fangelsi fyrir alvarlegar líkamsárásir. Smári Valgeirsson var dæmdur í tveggja ára fangelsi.

Þeir voru allir þrír dæmdir, ásamt sjö öðrum, fyrir að ráðast á og hafa í hótunum við fjölmarga menn. Sex hinna dæmdu fengu á bilinu 1 1/2 til tveggja ára dóm og einn fékk skilorðsbundinn dóm til fimmtán mánaða.

Ein árásin var gerð í Háholti í Mosfellsbæ í byrjun ársins, önnur árásin í Borgarhverfinu í Grafarvogi í desember í fyrra og sú þriðja á Sólbaðsstofu í Hafnarfirði í október í fyrra. Árásirnar voru í öllum tilfellum hrottafullar og svívirðilegar. Í árásinni í Grafarvogi neyddu þeir meðal annars eitt fórnarlambið til þess að pissa á félaga sinn. Í árásunum í Borgarhverfinu og í Hafnarfirði kröfðust þeir hundruð þúsunda frá fórnarlömbum sínum.

Mennirnir hafa fjögurra vikna frest til að ákveða hvort þeir muni áfrýja dómnum.

Enginn sakborninganna var viðstaddur dómsuppkvaðningu í morgun, nema Sigmundur Geir Helgason, oftast kallaður Simbi.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×