Skoðun

Annar hver unglingur drukkinn

Þorsteinn V. Einarsson skrifar
Næstum helmingur unglinga í 8.-10. bekk sögðust hafa orðið drukknir sl. 30 daga árið 1998, eða 42%. Nokkur fjöldi sagðist reykja daglega sama ár eða 23%. Á árunum fyrir þessi sláandi tíðindi var svo sannarlega reynt að berjast gegn áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga. Áhugavert er að skoða gömul tímarit og heyra frásagnir uppeldisfólks frá þessum tíma. Áherslurnar skömmu fyrir 1998 voru þær að ala á óttanum við afleiðingarnar af drykkju. Sýndar voru myndir af skemmdum heila, sagðar hörmungarsögur af unglingum sem byrjuðu að drekka snemma og rýnt í ömurlegustu afleiðingar þess að byrja snemma að neyta vímugjafa. Árangurinn var að minnsta kosti ekki betri en sá að helmingur unglinga hafði orðið ölvaður og stór hluti reykti daglega.

Staðan í dag er sú að 5% unglinga hafa orðið ölvaðir sl. 30 daga og 3% reykja daglega. Þvílíkur viðsnúningur, þvílík breyting. Uppeldis- og æskulýðsstofnanir, foreldrar og fræðimenn tóku saman höndum og fóru að fylgja öðru verklagi en áður hafði tíðkast upp úr árinu 2000. Forvarnir fóru að byggja á þeim kenningum sem rannóknir sýndu að bæru árangur. Rannsóknir sýndu að ákveðnir þættir í lífi unglinga hefðu verndandi áhrif; minnkuðu líkur á neyslu. Lykilþættir í forvörnum sýndu sig vera m.a. samvera fjölskyldunnar, jákvætt aðhald foreldra, umhyggja og stuðningur. Almenn vellíðan unglinga skipti miklu máli, sem og þátttaka í skipulögðu íþrótta- eða frístundastarfi, auk þess sem jafningjahópurinn hafði mikil áhrif. Áherslur á skaðsemi vímuefna eða hætturnar sem þeim fylgja var hvergi að sjá í forvörnum þess tíma.

Fagfólk sem starfar á vettvangi með unglingum hefur þó tekið eftir að blikur eru á lofti. Bakslag hefur orðið á virku forvarnarstarfi sl. ár og þau einföldu gildi sem byggt var á virðast hafa gleymst, hjá mörgum, eða kannski aldrei borist sumum. Mögulega hafa orðið kynslóðaskipti, enda tæp 20 ár síðan farið var af stað auk þess sem mikill samdráttur hefur verið í fjárveitingu til forvarnarverkefna (allavega í Reykjavík). Og ekki virðist velferðarráðuneytinu sérstaklega umhugað um forvarnir meðal unglinga.

Vissulega eru foreldrar algjörir lykilaðilar í forvörnum fyrir velferð barnanna sinna en hver er til staðar þegar foreldrarnir bregðast? Erum við með öflugt forvarnarkerfi sem stekkur inn í til stuðnings þeim börnum? Ó, nei – þó Barnaverndin kunni að virka fyrir allra, allra verst settu börnin. En ég fullyrði: ó, nei. Við þurfum að fara að dusta rykið af virkum forvörnum í víðu samhengi og gera það saman.

Vonandi hysjum við (borg, bær og ríki) upp um okkur buxurnar, hratt og örugglega. Annars kæmi það mér ekki á óvart ef ég sæi sambærilegar fyrirsagnir og á þessum pistli í nánustu framtíð. Eins og góður maður sagði: „Við þurfum að hlúa að æsku landsins“.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×