Innlent

Andstæðingar og fylgjendur veiða vilja sjá niðurstöðuna

Hjörtur Hjartarson skrifar
Bæði hvalveiðimenn og andstæðingar hvalveiða vilja að niðurstöður rannsóknar um dauðatíma hvala eftir að þeir eru skutlaðir verði birtar. Sjávarútvegsráðherra hyggst hinsvegar ekki gera þær opinberar þrátt fyrir fullyrðingar um annað í vetur.

Norskur dýralæknir hefur fyrir hönd Fiskistofu dvalið hér á landi í sumar við rannsóknir á dauðatíma langreyðar og hrefnu eftir að hvalirnir eru skutlaðir. Verkefnið er unnið í samstarfi við NAMMCO, Samtök þjóða á norðurslóðum um veiðar á sjávarspendýrum.

Rætt var um þessar rannsóknir á Alþingi fyrr í vetur og sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra þá:

Verið er að safna upplýsingunum í opinberum tilgangi og því verða þær gerðar aðgengilegar og menn upplýstir um málið sem það vilja, þannig að ég tel að það sé nú bara nokkuð augljóst.“

Í svari Sigurðar 30.júní við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, þingkonu VG, kemur hinsvegar fram að niðurstöðurnar verði ekki birtar. Ekki er útlistað hvers vegna.

„En ég er ekki hræddur við það, ef út í það er farið, að þessar upplýsingar verða birtar,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðamanna ehf. „Þær myndu bara styrkja okkar málstað.“

Lengi hefur verið þráttað um hversu eða hvort hvalveiðar við Íslandsstrendur séu mannúðlegar er dauðatími dýranna oft nefndur í því sambandi.

„Það sem að við upplifum við þessar veiðar undanfarin ár er það að dauðastríðið er ekkert á þessum kvölum.“

Undarlegt að rannsaka ef ekki á að birta niðurstöður

Skutlarnir eru útbúnir öflugum sprengjum sem að sögn Gunnars stöðva hjarta dýrsins um leið. Andstæðingar hvalveiða hafa oft dregið fullyrðingar sem þessar í efa.

„Það er enginn tilgangur með því að vera með eftirlit á því og rannsóknir á því hvernig staðið er að þessum veiðum hér, hvalveiðum, ef ekki á að birta þær,“ segir Sigursteinn Másson, fulltrúi IFAW á Íslandi.

Sigursteinn segir það mikilvægt fyrir umræðuna um hvalveiðar að niðurstöður rannsóknarinnar verði gerðar opinberar.

„Vegna þeirrar leyndar sem hefur hvílt yfir þessum veiðum hefur verið mjög erfitt að fá einhverjar óháðar upplýsingar um það hve langan tíma það tekur að drepa dýrin. Og það er auðvitað mjög furðulegt ef það eftirlit sem á að fara í gang hér mun ekki leiða það í ljós. Heldur verður því og þessum niðurstöð haldið eingöngu inn í lokuðum klúbbi NAMCO.

Báðar fylkingar, hvalveiðimenn og þeir sem eru á móti hvalveiðum, vilja að þessar upplýsingar verði gerðar opinberar. Stjórnvöld vilja það hins vegar ekki. Það er ekki til þess fallið að draga úr umræðunni um hversu umdeildar hvalveiðar eru á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×