Innlent

Alþingi mun staðfesta skipun dómara við nýtt millidómstig - Landsrétt

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður var formaður nefndarinnar sem samdi frumvarpið um nýja millidómstig sem hefur fengið nafnið Landsréttur.
Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður var formaður nefndarinnar sem samdi frumvarpið um nýja millidómstig sem hefur fengið nafnið Landsréttur.
Stefnt er að því að nýtt millidómstig, sem tekið verður upp á Íslandi, muni bera heitið Landsréttur. Verður það sérstakur áfrýjunardómstóll fyrir allt landið sem mun létta þunganum á Hæstarétti ef tillögur nefndar sem vinna frumvarp um málið ná fram að ganga. Alþingi mun þurfa að staðfesta skipun 15 dómara við hinn nýja dómstól sem er alveg ný aðferðafræði við skipun dómara hér á landi.

Nokkuð breið sátt er meðal lögfræðinga um þörfina fyrir millidómstig og umræðan hefur staðið yfir í nokkuð ár. Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari birti til dæmis ritgerð á vordögum 2013 sem ber heitið „Veikburða Hæstiréttur“ þar sem hann fjallaði um meinbaugi á dómskerfinu og þá staðreynd að Hæstiréttur Íslands er að kikna undan álagi. Hæstiréttur hafi ekki verið gert nægilega vel kleift að rækja hlutverk sitt sem eiginlegur Hæstiréttur sem dæmi í stórum fordæmisgefandi málum.



Fjölskyldustemmning í Hæstarétti

Í ritgerðinni talar Jón Steinar Gunnlaugsson um fjölskyldustemmningu í Hæstarétti og segir á einum stað: „Kannski er fjölskyldustemningin afleiðing af allt of miklu málaálagi. Einstaklingarnir sem skipa dóminn hverju sinni eru eðlilega misjafnlega þeim kostum búnir að geta unnið undir því mikla álagi sem felst í að kynna sér öll málin svo vel sem nauðsynlegt er. Ég held að fæstir þeirra ráði við álagið þegar málafjöldinn er orðinn svo mikill sem raun ber vitni“ (bls. 55).

Alvarlegasti gallinn við núverandi kerfi er sú staðreynd að ekki fer fram milliliðalaus sönnunarfærsla í sakamálum fyrir Hæstarétti heldur byggir rétturinn á endurritum úr þingbók af munnlegum skýrslum sem gefnar voru í héraði. Þannig skynja dómarar aldrei af eigin raun framburð vitna heldur þurfa að lesa frásögn þeirra á skjölum. Með þessu er farið á svig við meginregluna um milliliðalausa sönnunarfærslu.

Nefnd um millidómsstig sem Ögmundur Jónasson þáverandi innanríkisráðherra skipaði í júní 2011 segir: „Þessi ágalli á sakamálalögum og réttarframkvæmd er svo alvarlegur að tafarlausra úrbóta á íslenskri réttarskipan er þörf.“

Alþingi þarf að samþykkja nýja dómara

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra skipaði í fyrra nýja nefnd um millidómstig sem falið er að vinna frumvarp um breytingar á lögum um Hæstarétt og setja fram nýtt frumvarp um millidómstig. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 er lagt til af nefndinni að hið nýja dómstig muni bera heitið Landsrétturinn og verður áfrýjunardómstóll fyrir alla héraðsdómstólana á landinu. Gert er ráð fyrir að allt að fimmtán nýjar stöður dómara verði til í Landsrétti. Þá mun nefndin leggja til að innanríkisráðherra tilnefni dómara í réttinn að fenginni umsögn hæfnisnefndar og síðan þurfi Alþingi að staðfesta skipun allra dómara við fyrstu skipun þeirra. Er þetta alveg ný nálgun við skipun dómara hér á landi. Þá fækkar dómurum við Hæstarétt og rétturinn mun aðeins taka við stórum fordæmisgefandi málum sem fá áfrýjunarleyfi.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra
Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur gætt talsverðar óánægju hjá réttarfarsnefnd með að þessari nefnd innanríkisráðherra hafi verið falið að semja frumvarpið þar sem það lúti að grundvallarbreytingum á dómskerfi landsins. Mun formaður réttarfarsnefndar, Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari, hafa látið í ljós ánægju með að nefndinni hafi verið falið svo mikið ábyrgðarhlutverk þar sem í nefndinni séu ungir lögfræðingar sem hafi ekki nægilega mikla reynslu til verksins.

Þess skal getið að formaður nefndarinnar, Kristín Edwald hæstaréttarlögmaður er 43 ára og hefur 17 ára reynslu af lögmennsku. Þá hefur það verið afstaða innanríkisráðherra, samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar, að ekki sé eðlilegt að dómararnir sjálfir semji frumvarp til breytinga á eigin starfsumhverfi, þ.e. dómstólunum. Betra sé að fá utanaðkomandi lögfræðinga til verksins.

Frumvarp nefndarinnar verður sent til réttarfarsnefndar til umsagnar síðar í þessum mánuði. Ef allt gengur að óskum gæti framlagningarhæft frumvarp litið dagsins ljós í innanríkisráðuneytinu með haustinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×