Innlent

Almannatengill segir nafnavandræði draga úr trúverðugleika

Andrés Jónsson, almannatengill.
Andrés Jónsson, almannatengill.
„Ég held að það sé alltaf óheppilegt fyrir stjórnmálaöfl að lenda í nafnavandræðum," segir Andrés Jónsson, almannatengill. Lilja Mósesdóttir kynnti í dag nafn á nýjum stjórnmálaflokki sínum en hann ber heitið Samstaða. Í frétt á Vísi hér í kvöld var sagt frá því að til er stjórnmálaafl sem heitir Samstaða, en það eru samtök sem voru stofnuð á Patreksfirði árið 1998. Þau eiga núna þrjá fulltrúa í bæjarstjórn bæjarins.

Andrés segir í samtali við Vísi að það hafi komið fyrir áður að deilur hafi orðið um nöfn á stjórnmálaflokkum. Til að mynda hafi Vinstri Grænir lent í basli þegar þeim var úthlutað listabókstafnum U, en þeir vildu fá bókstafinn V. Þar sem Kvennalistinn hafði áður haft þann staf var það ekki mögulegt. Að lokum var þó samið um að Vinstri Grænir fengju að nota stafinn V í kosningum.

Hann segir að það sé ekki gott fyrir stjórnmálaflokk að það sé vandræðagangur sem einkennir flokkinn þegar hann kemur ný inn á sviðið. „Og fréttir af deilum við þetta fólk á Patreksfirði, það dregur úr trúverðugleikanum. Ef ég ætti að ráðleggja þeim þá ættu þau að komast að samkomulagi við fólkið á Patreksfirði og fá stuðning þeirra," segir Andrés að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×