Innlent

Alls 4.088 fengu fjárhagsaðstoð

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklings á árinu gat numið allt að 169 þúsund krónum.
Fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklings á árinu gat numið allt að 169 þúsund krónum. VÍSIR/VILHELM
Alls fengu 4.088 einstaklingar og fjölskyldur fjárhagsaðstoð á vegum Reykjavíkurborgar í fyrra, samanborið við 4.218 árið þar áður. Það er fækkun um 3,1% milli ára. Þetta kemur fram í nýbirtri ársskýrslu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Fjárhagsaðstoð er veitt til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna. Þeir eiga rétt á fjárhagsaðstoð sem eiga lögheimili í Reykjavík og hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Aðstoðin er ýmist veitt sem styrkur eða lán.

Fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklings á árinu 2014 gat numið allt að 169.199 kr. á mánuði og 253.799 kr. á mánuði til hjóna eða fólks í sambúð. Aðstoðin er óháð barnafjölda, þar sem reiknað er með að barnabætur, meðlög og barnalífeyrir mæti kostnaði vegna barna. Vaxtabætur og húsaleigubætur mæta mismunandi kostnaði vegna húsnæðis.

Fjárhagsaðstoð til framfærslu var veitt 3.269 einstaklingum og fjölskyldum samanborið við 3.350 árið 2013 og er það fækkun um 2,4% á milli ára. Synjanir umsókna um fjárhagsaðstoð voru 584 á árinu. Þar af var 236 einstaklingum synjað með öllu um fjárhagsstuðning samanborið við 220 mál árið 2013 og er það fjölgun um 7%.

Auk fjárhagsaðstoðar til framfærslu er heimilt að veita einstaklingum og fjölskyldum fjárhagsaðstoð vegna sérstakra aðstæðna, náms eða óvæntra áfalla samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×