Fótbolti

Alfreð lærir þýsku með því að horfa á fréttirnar | Talað of hratt í barnaefninu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð er búinn að skora eitt mark á tímabilinu.
Alfreð er búinn að skora eitt mark á tímabilinu. vísir/getty
Alfreð Finnbogason, leikmaður Augsburg og íslenska landsliðsins, er sem kunnugt er mikill tungumálamaður.

Auk íslensku talar landsliðsframherjinn ensku, sænsku, hollensku, spænsku og ítölsku. Nú síðast bættist þýskan svo við.

„Fyrir mér er það mikilvægt að læra tungumálið í landinu þar sem þú spilar. Ég fæ þýskukennara í heimsókn einu sinni í viku og við förum yfir málfræðina,“ sagði Alfreð í samtali við Bild.

Alfreð skoraði sjö mörk í 14 deildarleikjum á síðasta tímabili.vísir/getty
Hann notar sjónvarpið til að hjálpa sér að læra tungumál.

„Á Spáni horfði ég mikið á barnaefni, þar er talað bæði hægar og skýrar sem er gott þegar þú ert að læra tungumál. Í barnaefninu hérna er talað full hratt svo ég horfi mikið á fréttirnar,“ sagði Alfreð sem gekk til liðs við Augsburg í byrjun febrúar.

Hann var upphaflega lánaður til þýska liðsins en eftir gott gengi seinni hluta síðasta tímabils gekk Alfreð endanlega til liðs við Augsburg í sumar.

Alfreð og félagar mæta Freiburg í þýsku úrvalsdeildinni á morgun en svo taka við tveir leikir gegn Bayern München, í deild og bikar.

„Ef þú vilt vinna titilinn þarftu að vinna besta liðið,“ sagði Alfreð um bikarleikinn í samtalinu við Bild.

„Við [íslenska landsliðið] sýndum það á EM að litla liðið á möguleika gegn því stóra. Við þurfum að fara með gott hugarfar til München og trúa því að við getum unnið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×