Enski boltinn

Alexis Sánchez er kominn í hóp með Zlatan og Eiði Smára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alexis Sánchez verður brátt búinn að spila fyrir Mourinho og Guardiola eins og Eiður og Zlatan.
Alexis Sánchez verður brátt búinn að spila fyrir Mourinho og Guardiola eins og Eiður og Zlatan. vísir/getty
Alexis Sánchez var formlega kynntur til sögunnar sem leikmaður Manchester United í gær en hann skrifaði undir fjögurra og hálfs árs samning og er launahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Hjá United verður Sánchez undir stjórn Portúgalans José Mourinho og er hann því tólfti meðlimur vel mannaðs hóps leikmanna sem hafa bæði spilað fyrir Mourinho og erkióvin hans, Pep Guardiola.

Guardiola keypti Sílemanninn frá Udinese til Barcelona og þjálfaði hann í tvær leiktíðir áður en sá spænski tók við þýska risanum Bayern München.

Það eru risanöfn í þessum tólf manna hópi sem hafa verið undir stjórn Mourinho og Guardiola en þar ber kannski helst að nefna Zlatan Ibrahimovic, Xabi Alonso, Arjen Robben, Kevin De Bruyne og auðvitað Eið Smára Guðjohnsen.

Eiður Smári vann ensku úrvalsdeildina tvívegis undir stjórn Mourinho hjá Chelsea og spilaði eitt ár undir stjórn Guardiola hjá Barcelona en það tímabil vann liðið þrennuna.

Í skemmtilegri úttekt ESPN FC er skorið úr um hvort leikmennirnir ellefu hafi spilað betur fyrir Mourinho eða Guardiola. Greinarhöfundur getur ekki gert upp á milli þjálfaranna hjá einum leikmanni en það er hjá Eiði Smára Guðjohnsen.

„Þetta er erfitt. Guðjohnsen hefur talað vel um þá báða, sérstaklega í viðtali í Times á síðasta ári. Þar sagði hann: „Báðir eru góðir menn en mjög ólíkir karakterar. José er meiri karakter. Pep vill ekki ræða erfið mál við leikmenn á meðan José virðist stundum njóta spennunnar“,“ segir í umsögn um Eið Smára og haldið er áfram:

„Guðjohnsen spilaði bara eitt tímabil fyrir Guardiola en það var ekki slæmt tímabil því liðið vann þrennuna. Hann var samt stærri hluti af liðinu hjá Mourinho. Þetta er of jafnt til að skera úr um sigurvegara,“ segir greinarhöfundur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×