Íslenski boltinn

Ágúst: Örugglega 200 Keflvíkingar og 14 Fjölnismenn

Ingvi Þór Sæmundsson á Fjölnisvelli skrifar
Ágúst Gylfason.
Ágúst Gylfason. Vísir/Daníel
Ágúst Gylfason var óhress með niðurstöðuna í leik Fjölnis og Keflavíkur í kvöld, en Fjölnir hefur nú gert sjö jafntefli í 17 leikjum í Pepsi-deildinni. Jóhann Birnir Guðmundsson kom Keflavík yfir á 3. mínútu, en Þórir Guðjónsson jafnaði á þeirri 19. og þar við sat.

„Þetta var svokallaður sex stiga leikur, en liðin deildu stigunum með sér. Vonandi hjálpar þetta stig okkur þegar verður talið upp úr kössunum í lokin,“ sagði Ágúst eftir leikinn.

„Við höfum gert mikið af jafnteflum og við vorum einmitt að ræða það hversu erfitt það væri að vinna fótboltaleiki, en við áttum möguleika á því í dag, miðað við hvernig fyrri hálfleikurinn spilaðist.

„Við ætluðum að nýta vindinn í seinni hálfleik og setja pressu á þá, en því miður náðum við ekki að sýna nógu góðan fótbolta og koma okkur í góð færi. Keflvíkingar fengu aftur móti hættuleg færi í skyndisóknum og þeir stóðu sig vel,“ sagði Ágúst sem var ánægður með fyrri hálfleikinn hjá sínu liði.

„Það var mikill vilji í liðinu. Við fengum á okkur mark strax í upphafi leiks, en við stigum virkilega vel upp og sýndum afbragðs leik á móti vindinum. Við spiluðum af miklum krafti og sá kraftur fylgdi með inn í seinni hálfleikinn, en gæðin fylgdu hins vegar ekki með og við sköpuðum okkur ekki eins mörg færi og við vildum,“ sagði Ágúst.

Mætingin á leikinn var afar döpur, en aðeins 214 áhorfendur höfðu fyrir því að mæta á þennan mikilvæga leik. Ágúst kveðst ósáttur með lítinn stuðning Grafarvogsbúa.

„Þetta er með ólíkindum að vera í þessari baráttu og 214 áhorfendur hafi verið á vellinum. Það voru örugglega 200 Keflvíkingar og 14 Fjölnismenn. Það er skömm að þessu.

„Ég veit ekki hvar fólkið er. Það er búið að senda kort á heimili og annað. En það þýðir ekkert að grenja yfir þessu, við þurfum bara að fara að vinna leiki,“ sagði Ágúst að lokum.


Tengdar fréttir

Fallslagur í Grafarvogi

Fjölnir og Keflavík mætast á Fjölnisvelli í kvöld, en báðum liðum hefur gengið illa að sækja stig að undanförnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×