Innlent

AGS hvetur til varfærni við afnám hafta

Heimir Már Pétursson skrifar
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir skynsamlegt að taka varfærin skref til losunar fjármagnshafta í ljósi ástands heimsbúskaparins jafnhliða áframhaldandi stefnufestu og styrkingu innviða. Útlit sé fyrir að einkaneysla muni styrkjast vegna skuldaleiðréttingar stjórnvalda og lægra innflutningsverðs.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn  kynnti í morgun álit sitt á stöðu efnahagsmála á Íslandi og er þetta fimmta eftirfylgniskýrsla sjóðsins vegna efnahagsáætlunar Íslands og AGS. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hvetur til varfærni við losun gjaldeyrishafta í ljósi ástands heimsbúskaparins jafnhliða áframhaldandi stefnufestu og styrkingu innviða, en þar með talinn sé sjálfstæður seðlabanki, haldgóðar ríkisfjármálareglur og traustar varúðarreglur og varúðarráðstafanir, eins og segir í álitinu.

AGS segir helsta viðfangsefnið á sviði hagstjórnar sé að styrkja fjárhagsleg tengsl Íslands við umheiminn. Árangur á því sviði sé forsenda fyrir  hagvexti og hagkvæmari fjárfestingarkostum fyrir heimili og fyrirtæki landsins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að enn séu veikleikar fyrir hendi í íslensku efnahagslífi. Eftirmál fjármálaáfallsins séu enn nokkur og hafi það áhrif á hagvöxt og dragi úr ytri stöðugleika. Óvissa ríki enn vegna losunar fjármagnshafta, töluverðs þrýstings á launahækkanir í komandi kjaraviðræðum, lagalegra viðfangsefna vegna skatta á fjármálafyrirtæki og framkvæmd verðtryggingar og veikrar stöðu Íbúðalánasjóðs.

Peter Dohlman nýr formaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir þrýsting verkalýðsfélaga á launahækkanir skiljanlegar. En launahækkanir umfram framleiðni feli í sér hættu.

“Þetta er mikilvægt fyrir land sem er að reyna að vinna sig út úr gjaldeyrishöftum. Ef samkeppnishæfni landsins verður veikt getur það hægt á jákvæðri þróun á öðrum sviðum. Aðalmálið er að aðilar vinnumarkaðarins reyni að finna leið fram á við í launamálum í takti við framleiðniþróunina,” segir Dohlman.

Þá segir Dohlman jákvætt að stjórnvöld hafi þá stefnu að hafa afgang á fjárlögum og nýlegar endurbætur á virðisaukaskattskerfinu séu skref í rétta átt.

Nánar verður fjallað um skýrslu AGS í kvöldfréttum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×