Innlent

Afþakkaði aðstoð lögreglu eftir líkamsárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Hari
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Tilkynnt var um þó nokkrar árásir og nokkuð var um eignaspjöll, ölvun og slys. Þá var nokkuð um ökumenn undir áhrifum ölvunar og/eða fíkniefna. Einn maður sem tilkynnti líkamsárás á Háaleitisbraut sagði að úlpu sinni hefði verið stolið.

Hann afþakkaði þó aðstoð lögreglu, sagðist þekkja þann sem réðst á sig og ætlaði að reyna að endurheimta úlpuna sjálfur. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort að það hafi heppnast.

Þá réðst maður á stúlkur við Tryggvagötu í nótt, en þeim tókst að forða sér inn á hótel sem var þar nærri. Maðurinn var horfinn þegar lögregluþjóna bar að garði, en vitað er hver hann er. Einnig var maður handtekinn við Templarasund nærri Dómkirkjunni en hann var sagður hafa verið að áreita stúlkur. Hann var ofurölvi og var vistaður í fangageymslu í nótt.

Þar að auki var maður handtekinn eftir að hann réðst á dyraverði við veitingahús við Laugaveg.

Þrjár tilkynningar bárust um menn sem brutu rúður í bílum í miðbænum. Í eitt skiptið sá eigandi bílsins hverjir voru þar að verki og sagði hann að annar þeirra hefði ráðist á sig í miðbænum fyrr um nóttina. Hann vissi hverjir voru að verki.

Þá barst lögreglunni tilkynning um að maður hefði fallið af svölum íbúðar á 3. hæð við Breiðvang. Hann var fluttur á Slysadeild til aðhlynningar, en frekari upplýsingar um meiðsl hans liggja ekki fyrir. Annar maður var í mjög annarlegu ástandi í íbúðinni og var hann handtekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×