Innlent

Afstaða frambjóðenda til málskotsréttarins skiptir miklu máli

Höskuldur Kári Schram skrifar
Afstaða frambjóðenda til málskotsréttarins skiptir miklu máli í vali kjósenda á forseta.

þetta kemur fram í könnun stöðvar tvö og fréttablaðsins sem gerð var dagana þrítugasta og þrítugasta fyrsta maí. Spurt var - hversu mikið vægi hefur afstaða frambjóðenda til málskotsréttarins á þitt val á forseta.

Tuttugu og tvö prósent sögðu afstöðuna hafa mjög eða frekar lítið vægi. Fjörutíu og níu prósent sögðu hins vegar afstöðuna hafa mjög eða frekar mikið vægi. Aðrir voru óákveðnir, hlutlausir eða vildu ekki svara.

Sé horft til frambjóðenda kemur í ljós að sextíu og fjögur prósent þeirra sem ætla að kjósa Ólaf Ragnar Grímsson finnst málskotsrétturinn skipta miklu eða mjög miklu máli en fjörutíu og tvö prósent þeirra sem ætla að kjósa Þóru Arnórsdóttur.

Þrjátíu níu prósent þeirra sem ætla að kjósa Ara Trausta Guðmundsson telja að málskotsrétturinn skipti miklu eða mjög miklu máli en hlutfallið var lægra hjá öðrum frambjóðendum.

Þrjátíu og níu prósent þeirra sem ekki hafa gert upp hug sinn varðandi frambjóðendur telja að málskotsrétturinn skipti miklu eða mjög miklu máli. Tuttugu prósent voru hins vegar á þeirri skoðun að hann skipti litlu eða mjög litlu máli.

Þetta gæti komið Ólafi Ragnari til góða þegar dregur nær kosningum enda virðast kjósendur hans almennt leggja mikla áherslu á málskotsréttinn. Hins vegar er rétt að taka fram að allir frambjóðendur hafa lýst því yfir að þeir telji að málskotsrétturinn sé virkur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×