Innlent

Áfallahjálp veitt vegna banaslyssins

Samúel Karl Ólason skrifar
Hjólabáturinn Klaki á ferð um Jökulsárlón.
Hjólabáturinn Klaki á ferð um Jökulsárlón. Vísir/Valli
Rannsókn lögreglunnar á tildrögum banaslyssins við Jökulsárlón í gær er enn í fullum gangi samkvæmt Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni á Suðurlandi. Hann segir að yfirheyrslur og skýrslutökur hafi ekki farið fram, en það verði líklega gert í dag.

Í slysinu lést erlend kona á sextugsaldri en hún var á ferð við lónið með fjölskyldu sinni. Fjöldi manns varð vitni að slysinu sem gerðist á planinu á milli lónsins og kaffihússins um klukkan fimm í gær. Fjölmargir ferðamenn voru á svæðinu.

Sveinn segir að áfallahjálparteymi hafi verið kallað til vegna slyssins. Ekki liggur þó fyrir hve margir sjónarvottar nýttu sér það.

Konan varð undir hjólabátnum Klaka, sem er rúm þrjú tonn að þyngd samkvæmt skipaskrá. Talið er að hún hafi látist samstundis. Ekki er hægt að gefa upp nafn hennar eða þjóðerni að svo stöddu. Verið er að reyna að ná sambandi við ættingja hennar og vini heima fyrir.


Tengdar fréttir

Alvarlegt slys við Jökulsárlón

Um er að ræða erlendan ferðamann sem var á ferðalagi með fjölskyldu sinni. Lögregla og aðrir viðbragðsaðilar eru á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×