Skoðun

Af svínum með fjórar síður

Hörður Harðarson skrifar
Það er ástæða til að þakka Þórólfi Matthíassyni fyrir að halda umræðu um landbúnað á Íslandi lifandi og áhugaverðri og ekki skemmir fyrir að Þórólfur á það til að vera mikill húmoristi. Því miður er grein hans í Fréttablaðinu í gær aðeins gædd síðastnefnda kostinum og eiginlega um of þannig að úr verður samsafn af skætingi í garð íslensks landbúnaðar.

Tollar um allan heim

Þórólfur segir íslenskan svínabúskap búa við „ofurtollavernd“ en skilgreinir ekki frekar hvað í því felst. Það er staðreynd að um nánast allan heim nýtur landbúnaður og ýmis matvælaframleiðsla verndar í formi tolla og eru ýmsar ástæður fyrir því sem ekki verða tíundaðar hér þó full ástæða sé til að ræða það við betra tækifæri. Það væri því áhugavert ef Þórólfur gæti upplýst um hvað það er sem gerir íslenska tolla að „ofurverndartollum“ umfram tolla sem þekkjast annars staðar. Þá hafa Íslendingar ekki algjört sjálfdæmi í því hverjir tollar eru á landbúnaðarafurðum heldur eru bundnir af ýmsum samningum þar að lútandi.

Íslenskur svínabúskapur hefur þá sérstöðu samanborið við mörg önnur lönd að hann nýtur engra beinna framleiðslustyrkja frá hinu opinbera eða öðrum. Svínabændur lúta því grunnlögmálum hagfræðinnar sem eru framboð og eftirspurn þegar kemur að verðmyndun og því mikill hvati fyrir okkur að koma svínakjötinu til neytenda með sem hagkvæmustum hætti. Og eins og Eurostat staðfesti nýlega þá búa neytendur við sanngjörn kjör á landbúnaðarafurðum borið saman við mörg grannríki okkar.

Hvergi minna af lyfjum

Hagkvæmni og lágt verð er þó ekki það eina sem skiptir okkur bændur og ekki síður neytendur máli. Íslenskur svínabúskapur hefur einnig þá sérstöðu að hann býr við einhverja framsæknustu löggjöf í heiminum þegar kemur að velferð og aðbúnaði dýra sem nú er unnið að því að innleiða. Að auki er hvergi í heiminum notað minna af lyfjum í svínabúskap en á Íslandi. Þetta gerir það að verkum að við getum óhikað fullyrt að þær afurðir sem svínin okkar skila af sér til íslenskra neytenda eru með því besta sem þekkist.

Velferð dýranna

Þetta á aftur á móti ekki við um hugmynd Þórólfs um ræktun á svínum með fjórar síður til að auka hagkvæmni og lægra verð til neytenda. Slíkar hugmyndir ganga ef til vill upp í heimi hagfræðinnar en þær eru í algjörri andstöðu við öll þau viðmið sem við íslenskir svínbændur höfum um velferð dýra. Það er nefnilega ekki einungis verð á vöru sem svínabændur þurfa að hugsa um heldur velferð dýranna og einnig að lágmarka alla lyfjagjöf til þeirra. Sé einungis haft í huga verð og hagkvæmni er hætta á að mönnum þyki það að verða í lagi að rækta svín með fjórar síður.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×