Innlent

Ætlar að virða lokanir á flugvellinum að vettugi ef líf liggur við

gissur sigurðsson skrifar
Vísir/Baldur
Leifur Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Mýflugs, sem annast sjúkraflug í landinu, segist sjálfur myndi lenda á Reykjavíkurflugvelli ef líf lægi við, þótt völlurinn væri lokaður, og hann yrði handtekinn fyrir vikið.

Völlurinn var lokaður frá klukkan níu í gærkvöldi til klukkan sjö í morgun vegna forfalla flugumferðarstjóra, og verður aftur lokaður í kvöld og nótt. Eftir því sem fréttastofa kemst  næst var engin bakvakt á flugvellinum þannig að ekki hefði fengist undanþága í neyðartilviki. Þá er útlit fyrir að svo verði aftur um næstu nótt.

Leifur segir að alla jafna séu um tvö til þrjú neyðarflug í viku. Líkt og staðan sé öllu sjúkraflugi beint til Keflavíkur og að ekki fáist undanþágur til að lenda í Reykjavík. Hins vegar yrði látið á undanþágurnar reyna ef um bráðatilvik væri að ræða.

Aðspurður hvað flugmenn í sjúkraflugi myndu gera ef nauðsynlegt væri að komast til Reykjavíkur hið snarasta segir hann:

„Ég myndi lenda prívat og persónulega ef ég væri á vakt þá nóttina. Ég yrði þá bara leiddur burt í járnum. En við látum ekki sjúklinga deyja, það gerist ekki, þó þetta sé kjarabarátta. Auðvitað höfum við samúð með flugumferðarstjórum en menn verða að líta á það þannig að þetta er fyrst og fremst kjarabarátta og menn verða að sinna neyðartilvikum,” segir Leifur.

Lítið miðar í kjaraviðræðum flugumferðarstjóra við Isavia. Deiluaðilar funduðu í húsakynnum ríkissáttasemjara í gær, en fundurinn bar ekki árangur. Næsti fundur hefur verið boðaður á föstudag, en takist ekki samningar fyrir þann tíma verður deilunni vísað til gerðardóms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×