Innlent

Ætlar að taka harðar á heimilisofbeldi

Snærós Sindradóttir skrifar
Fleiri handteknir Í tíð Sigríðar hjá lögreglunni á Suðurnesjum voru fleiri heimilisofbeldismenn handteknir og fjarlægðir af heimilum sínum en hafði áður tíðkast. Fréttablaðið/ Arnþór
Fleiri handteknir Í tíð Sigríðar hjá lögreglunni á Suðurnesjum voru fleiri heimilisofbeldismenn handteknir og fjarlægðir af heimilum sínum en hafði áður tíðkast. Fréttablaðið/ Arnþór
Nýr lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, vill ráðast í sömu stefnumótunarvinnu í heimilisofbeldismálum og hún gerði í tíð sinni sem lögreglustjóri á Suðurnesjum.

Breytingarnar sem ráðist var í gerðu það meðal annars að verkum að fleiri einstaklingar í umdæminu fengu á sig nálgunarbann og mun fleiri ofbeldismenn voru fjarlægðir af heimilum sínum.

„Í fyrsta lagi ákváðum við að þetta væri forgangsmál. Við höfðum sameiginlegan skilning á því að fara af fullum þunga inn í hvert einasta mál,“ segir Sigríður Björk.

Rannsóknardeild, almenn deild og lögfræðisvið lögreglunnar á Suðurnesjum unnu í sameiningu að hinu nýja kerfi. Þá var náið unnið með félagsþjónustunni á svæðinu.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir nýr lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
 „Það er gert áhættumat í hverju tilviki, eftir atvikum er farið í brottvísun á heimili, oftast að beiðni þolanda en það getur líka verið að frumkvæði lögreglustjóra,“ segir Sigríður. 

Hún segir að í undantekningartilfellum hafi þurft að grípa til neyðarhnapps. Reynsla erlendis gefi til kynna að neyðarhnappurinn hafi fælandi áhrif á ofbeldismenn. 

Sigríður segir að reynsla lögreglunnar á Suðurnesjum sýni að eftir því sem lengra líður frá verknaðinum verði erfiðara að ná haldbærum sönnunargögnum í málum. Oft dragi þolendur vitnisburð sinn til baka af ótta við ofbeldismanninn. 

Hin nýja nálgun í heimilisofbeldismálum þýðir aukin fjárútlát í málaflokkinn. „Þetta er ekkert ódýrt en við erum að reyna að hindra endurtekningu og rjúfa vítahring. Við teljum að þetta sé sú forgangsröðun sem við eigum að hafa,“ segir Sigríður. 

Björk Vilhelmsdóttir formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Hún segir að það sé einnig undir borgaryfirvöldum komið hvort átakið gangi eftir eins og hún vonast til. Félagsþjónustan verði að koma þétt að málum, meðal annars með eftirfylgni hjá þolendum og beinni aðkomu að þeim málum sem embættið hefur til meðferðar. 

„Það þarf að laga þetta að kerfinu á hverjum stað. Þetta er klárlega aukin vinna og það þarf að koma til vilji frá sveitarfélögunum. Það þarf stefnumótandi ákvarðanir.“

Björk Vilhelmsdóttir, formaður Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, segir að ráðið hafi kynnt sér hvernig málum var háttað hjá lögreglunni á Suðurnesjum.

„Það er fullur pólitískur vilji hjá okkur,“ segir Björk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×