Innlent

Ætlaði að fyrirfara sér þrettán ára

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Hefur oftar en einu sinni verið á þeim stað að vilja enda líf sitt. Fyrst þegar hann var þrettán ára gamall. Hann segir mikilvægt að opna á umræðuna og fyrir þá sem eru í þeim sporum að hafa sjálfsvígshuganir þá sé mikilvægast að leita sér aðstoðar.
Hefur oftar en einu sinni verið á þeim stað að vilja enda líf sitt. Fyrst þegar hann var þrettán ára gamall. Hann segir mikilvægt að opna á umræðuna og fyrir þá sem eru í þeim sporum að hafa sjálfsvígshuganir þá sé mikilvægast að leita sér aðstoðar. Fréttablaðið/Valli
„Góður vinur minn framdi sjálfsmorð þegar ég var sextán ára. Í raun og veru má segja að afleiðingarnar af því sem hann gerði fyrir fjölskyldu hans og vini, hafi bjargað lífi mínu oftar en einu sinni,“ segir Guðlaugur Bergmann, sem hefur glímt við geðhvarfasýki og hefur vegna veikinda sinna oft íhugað að fremja sjálfsmorð.

Á morgun hefst átakið Út með það! sem er samstarfsverkefni Hjálparsíma Rauða krossins og Geðhjálpar og snýr að því að vekja athygli á því samfélagsmeini sem sjálfsvíg ungra karlmanna er. Sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra manna á aldrinum 18 til 25 ára og þeir eru fjórum sinnum líklegri til að svipta sig lífi en ungar konur.

Guðlaugur er þakklátur fyrir að hafa ekki gengið alla leið og vill segja sína sögu til þess að opna á umræðuna og mögulega hjálpa þeim sem kunna að vera í sömu sporum og hann hefur verið í. „Það er nefnilega alltaf von. Von á einhverju svo miklu betra, þegar fólk er í þessum aðstæðum þá er það ekki tengt raunveruleikanum og þess vegna vil ég meina að það taki enginn ákvörðun um að enda líf sitt. Ég held að þetta sé bókstaflega vitfirring,“ segir Guðlaugur.

Þegar hann var aðeins þrettán ára gamall ætlaði hann í fyrsta skipti að enda líf sitt. „Ég var búinn að skipuleggja það að fara inn í bílskúr, klára þetta með haglabyssu,“ segir hann alvarlegur.

En þá mundi hann eftir sögu sem vinur hans hafði sagt honum. Af strák sem hafði framið sjálfsmorð og fjölskyldan hafi komið að honum. „Það var komið til að sækja líkið, en heilasletturnar, blóðið og það allt skilið eftir og fjölskyldan þurfti að þrífa það. Ég sá fyrir mér fjölskylduna mína koma að mér og þurfa svo að þrífa upp heilasletturnar. Ég grét og gat þetta ekki. Það var það eina sem stoppaði mig,“ segir hann.

Guðlaugur segist alltaf hafa haft miklar sveiflur, farið langt niður og svo aftur upp. Í sveiflunum missir hann tengsl við raunveruleikann. Hann lýsir þeim tilfinningum, sem sækja að honum þegar hann fer langt niður, sem miklu vonleysi. „Allt verður tilgangslaust. Allt sem er í gangi í kringum þig verður réttlæting á því sem er í gangi í hausnum á þér. Maður sér ekki það góða. Þetta eru mismunandi útgáfur af því að líf þitt sé ekki eins og það á að vera og geti aldrei orðið það,“ segir hann.

Guðlaugur var greindur með geðhvarfasýki árið 2010. Áður hafði hann farið til sálfræðinga en ekki fengið greiningu á sjúkdóm sínum. Hvetur hann fólk til að leita sér aðstoðar þangað til komin er lausn í málið og gefast ekki upp fyrr. „Ef um líkamleg veikindi væri að ræða, eins og t.d. magaverk, þá myndir þú ekki hætta fyrr en þú værir kominn með meðferð við því.“

Guðlaugur segir það mikilvægasta vera að komast að því hver vandinn er, sætta sig við hann og reyna ekki að takast á við hann einn.

„Ég tala mjög opinskátt við mína nánustu um þetta og í dag hef ég opnað mig um þetta við alþjóð. Það sem stoppar mig í dag er þéttofið net af fólki, ég er ekki að takast á við þetta einn. Jafnvel þótt ég fái annarlegar hugsanir þá átta ég mig á því í dag að þær eiga ekkert skylt við raunveruleikann. Þær eiga ekkert skylt við mig sem persónu. Það er sjúkdómurinn. Þetta er ekki það sem ég er að hugsa, þetta eru annarlegar hugsanir sem hafa stjórn á mér.“

Hann segir mikilvægt fyrir fólk að leita sér aðstoðar. Það sé alltaf von. „Þess vegna er svo nauðsynlegt að takast ekki á við þetta einn og að geta talað um þetta yfir höfuð. Oft er erfiðast bara að segja þetta, um leið og maður hefur sagt þetta upphátt þá missir það ákveðið vald og maður áttar sig á því hvað þetta eru fáránlegar hugsanir. Ekki reyna að gera þetta einn. Ef maður talar bara við sjálfan sig þegar maður er í þessu ástandi þá er sá sem er að ráðleggja manni ekki í snertingu við raunveruleikann. Ekki hætta fyrr en þú finnur lausn, það er til fullt af úrræðum og hægt að lifa góðu lífi sama hver ástæðan er.“

Staðreynir um sjálfsvíg á Íslandi: 

  • Sjálfmsorð er algengasta dánarorsök karlmanna á aldrinum 18 til 25 ára.
  • Karlar eru þrisvar til fjórum sinnum líklegri en konur til að svipta sig lífi.
  • Fjórir til sex ungir karlar stytta sér aldur á Íslandi á hverju ári.
  • Að meðaltali falla 35 manns fyrir eigin hendi á Íslandi á hverju ári.
  • Ríflega 100 manns eru lagðir inn á sjúkrahús vegna vísvitandi sjálfsskaða á hverju ári.
  • Fleiri konur en karlar eru lagðar inn á sjúkrahús vegna vísvitandi sjálfsskaða.
  • Alvarleg áföll, vímuefnaneysla, hvatvísi og ýmiss konar geðraskanir hafa verið tengd sjálfsvígum.
  • Ríflega eitt símtal til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 snýst um sjálfsvíg, eigið eða annarra, á hverjum einasta degi allan ársins hring.
  • Símtöl til Hjálparsíma Rauða krossins 1717 um sjálfsvíg voru 42% fleiri fyrrihluta ársins 2015 heldur en fyrrihluta ársins 2014.Geðhjálp, hjálparsími Rauða krossins 1717 og 12 manna hlaupahópur taka höndum saman um að stuðla að því að fækka sjálfsvígum ungra karla undir yfirskriftinni Útmeða. Ungir karlmenn eru hvattir til að tjá sig um tilfinningar sínar til að hafna ekki í tilfinningalegu öngstræti með ófyrirséðum afleiðingum.
Út með það 

Tólf manna hópur hleypur í kringum landið til að vekja athygli á átakinu Út með það og safna fé til að gera forvarnarmyndband. Lagt er upp frá húsnæði Rauða krossins við Efstaleiti í Reykjavík klukkan 9.30 í fyrramálið.

Heita má á hlauparana með því að hringja í símanúmerið 904-1500 og gefa þannig 1.500 krónur til átaksins. Minnt er á hjálparsímann 1717 og eru þeir sem glíma við sjálfsvígshugsanir hvattir til þess að hafa samband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×