Innlent

Ætla að slá heimsmetið í pitsubakstri

Freyr Bjarnason skrifar
Um 26 þúsund manns sóttu Fiskidaginn mikla á síðasta ári.
Um 26 þúsund manns sóttu Fiskidaginn mikla á síðasta ári. Mynd/Helgi Steinar
Aðstandendur Fiskidagsins mikla á Dalvík hyggjast slá heimsmetið í pitsubakstri með því að baka 80 til 100 fermetra saltfiskspitsu.

Tilefnið er þrjátíu ára afmæli fyrirtækisins Sæplasts. Hver pitsa sem verður bökuð í heilu lagi verður 120 tommur.

Fiskidagurinn mikli verður haldinn í fjórtánda sinn helgina eftir verslunarmannahelgina. „Þetta gengur allt samkvæmt venju,“ segir framkvæmdastjórinn Júlíus Júlíusson. Hann bætir við að fleiri nýjungar verði á matseðlinum, þar á meðal fiskipylsur sem kallast filsur.

Neðansjávarmyndbönd úr smiðju Erlends Bogasonar kafara verða frumsýnd. Þar sést Erlendur meðal annars klappa steinbítnum Stefaníu eins og um kettling sé að ræða.

Dalvíkingarnir Eyþór Ingi, Matti Matt og Friðrik Ómar verða í sviðsljósinu á kvöldtónleikunum, ásamt öðrum. Sungin verða lög með Meat Loaf, Freddie Mercury, Elvis Presley og Bee Gees, auk Eurovision-slagara. „Þetta verður stærsta tónlistarsýning sem hefur verið sett upp á landsbyggðinni,“ fullyrðir Júlíus og hefur það eftir fyrirtækinu Exton. Kvöldinu lýkur svo með flugeldasýningu.

En hvernig verður veðrið? „Það verður það sama og síðustu 13 ár. Það er alltaf gott veður hjá okkur, 7, 9, 13. Alltaf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×