Innlent

Ætla að rannsaka starfsemi hafnarinnar

sveinn arnarsson skrifar
Skoða á rekstur hafnarinnar.
Skoða á rekstur hafnarinnar. Fréttablaðið/Stefán
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti á síðasta fundi sínum að ráðast í úttekt á stjórnsýslu, fjármálum og rekstri Hafnarfjarðarhafnar síðastliðin tíu ár. Fara á yfir stjórnun og starfsemi hafnarinnar. Málefni hafnarinnar hafa verið í sviðsljósinu síðustu vikur. Tvírukkað var fyrir gjöld vegna lóðasamninga og einnig stóð til að formaður hafnarstjórnar áminnti starfsmann hafnarinnar fyrir að hafa sagst átt fund með bæjarstjóra þann 15. nóvember síðastliðinn.

„Minnihlutinn í bæjarstjórn óskaði eftir því að farið yrði í stjórnsýsluúttekt á málefnum hafnarinnar, í ljósi þeirrar umræðu sem uppi hefur verið um hana. Okkur þótti sjálfsagt að verða við þeirri beiðni,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar. „Niðurstöður úr þessari skoðun verða síðan notaðar í mótun framtíðarstefnu um málefni hafnarinnar,“ segir Rósa.

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar, er ekki sammála því að hér sé verið að fara að vilja minnihlutans. „Eins og þetta útspil meirihlutans blasir við mér þá fjallar það fyrst og fremst um að drepa málinu á dreif og draga athyglina frá því sem er að gerast í málefnum hafnarinnar. Í stað þess að axla ábyrgð og sýna einhvern vilja til að lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið í samskiptum hafnarstjórnar og starfsmanna þá bregst meirihlutinn við með því að benda í allar áttir og hóta fólki rannsóknum,“ segir Gunnar Axel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×