Skoðun

Aðgerða er þörf til að bæta stærðfræðikunnáttu

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skrifar
Fyrr í þessum mánuði var birt úttekt á stærðfræðikennslu í framhaldsskólum. Samkvæmt niðurstöðum hennar er staða stærðfræðinnar í skólakerfinu vægast sagt dapurleg hvort sem litið er til kennslu, kennslugagna, námskrárviðmiða eða gæðaeftirlits.

Í níu framhaldsskólum sem skoðaðir voru, hafði meirihluti kennara minni menntun í stærðfræði en krafa er um í lögum og reglugerðum. Þannig störfuðu samtals 73 stærðfræðikennarar í skólunum níu. Aðeins 18 þeirra voru með háskólapróf í stærðfræði og þar af kenndu 11 í Menntaskólanum í Reykjavík. Jafnframt kemur fram í skýrslunni að nemendur setjast á skólabekk í framhaldsskóla afar misvel undirbúnir úr grunnskóla.

Námsundirbúningur og námshæfni nemenda annars vegar og gæði kennslunnar hins vegar eru augljóslega þeir þættir sem mestu ráða um árangur. En getum við sætt okkur við það að lítill hluti nemenda í íslenskum framhaldsskólum fái kennslu kennara sem eru menntaðir í stærðfræði? Er réttlátt að það séu fyrst og fremst nemendur sem koma inn í framhaldsskólann með háar einkunnir úr grunnskóla sem fá að njóta kennslu fagmenntaðra kennara á framhaldsskólastigi? Á tímum þar sem hrópað er á meiri kunnáttu í tæknigreinum, sem allar byggja fyrst og fremst á stærðfræðimenntun, vanrækjum við grunninn. Við verðum að bæta úr þessu þegar í stað. Góð stærðfræðimenntun á að vera almenningseign og ekki standa einungis til boða þeim nemendum sem læra fljótt og auðveldlega. Allir eiga rétt á að læra mikla stærðfræði. Góð stærðfræðimenntun er ein tryggasta leiðin til góðra starfa og afkomu á þeirri tækniöld sem nú er gengin í garð.

Borðleggjandi hugmynd

Hvað er til ráða? Skýrsluhöfundar leggja til ýmislegt. Það er mikilvægt að skoða tillögur þeirra vandlega og hefjast handa við áætlanagerð. Hugmynd þeirra um fagráð sem vakir yfir stærðfræðikennslu í landinu er borðleggjandi. Rétt væri að stofna það strax. Einnig þarf að grípa á lofti tillögu þeirra um að veita núverandi stærðfræðikennurum viðbótarmenntun í stærðfræði til að styrkja kunnáttu þeirra í greininni. Setja þarf inn einhvers konar hvata, til að greiða fyrir því að kennarar grípi tækifærið og sæki sér frekari menntun.

Um væri að ræða bráðaaðgerðir. Ég óttast að við höfum ekki tíma til að bíða eftir því að nógu margir einstaklingar ljúki háskólaprófi í stærðfræði og öðlist réttindi til að kenna í framhaldsskólum. Þeir fáu sem útskrifast með háskólamenntun í stærðfræði sækja að öllu jöfnu í önnur störf, sem njóta meiri virðingar og eru betur launuð en kennarastarfið hefur verið til þessa.

Kennarar sóttir til útlanda?

Ef til vill er kostur að sækja til útlanda góða og vel menntaða stærðfræðikennara. Enn ein lausn til að bæta almenna stærðfræðimenntun og gæta jafnræðis gagnvart nemendum er að hefja umfangsmikla framleiðslu á kennsluefni á myndbandi sem sett yrði á netið. Fyrirmynd eru fyrirlestrar Khan Academy, sem margir íslenskir nemendur njóta nú þegar góðs af, ásamt stærðfræðinemendum um heim allan. Slíkt efni á íslensku greiðir fyrir sjálfsnámi, jafnar tækifæri nemenda og getur orðið kennurum í skólunum ómetanlegur stuðningur.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, hefur þegar lýst því yfir að skýrsluna beri að taka alvarlega og að hrinda þurfi af stað aðgerðum til að bæta stærðfræðimenntun í landinu. Við skólafólkið þurfum síðan að fylgja málinu í höfn. Í meðfylgjandi töflu er gróf flokkun á athugasemdum skýrsluhöfunda ásamt tilraun til að tilgreina undir hverja úrbætur um einstök atriði heyra.

Við getum vel breytt þessu ef við tökum höndum saman!




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×