Innlent

Aðeins Hollendingar og Bretar styðja ESA

Noregur og Liechtenstein styðja rök Íslands um að ekki sé ríkisábyrgð á innistæðutryggingakerfi. Bretland og Holland sendu ein EES-ríkja inn athugasemdir til stuðnings ESA.
Noregur og Liechtenstein styðja rök Íslands um að ekki sé ríkisábyrgð á innistæðutryggingakerfi. Bretland og Holland sendu ein EES-ríkja inn athugasemdir til stuðnings ESA.
EFTA-réttinum bárust aðeins fjórar athugasemdir frá EES-ríkjum. Bretar og Hollendingar styðja ESA, en Noregur og Liechtenstein styðja sjónarmið Íslands. Utanríkisráðherra telur málflutning Íslands hafa skilað sér til annarra EES-ríkja.

Bretland og Holland eru einu EES-ríkin sem nýttu sér tækifærið til að styðja málarekstur Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í Icesavemálinu, með skriflegum athugasemdum, en málið er nú rekið fyrir EFTA-dómstólnum.

Skilafrestur athugasemda rann út á miðnætti í fyrrinótt, en þá höfðu EFTA-ríkin Noregur og Liechtenstein lagt fram athugasemdir til stuðnings málstað Íslands.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir ánægjulegt að Noregur og Liechtenstein taki undir málflutning Íslands.

„Mér finnst líka merkilegt að í athugasemdum sínum taka hvorki Bretland né Holland undir með ESA varðandi meinta mismunun Íslendinga gagnvart innistæðueigendum utan Íslands. Ég vil svo sem ekki draga of miklar ályktanir af því, en þessi meinta mismunun er annar af tveimur meginásunum í stefnu ESA gegn okkur.“

Hin meginstoðin í málarekstri ESA lýtur að því hvort Ísland hafi gerst brotlegt við innistæðutryggingatilskipun ESB. Málsvörn Íslands lýtur að því að annars vegar sé hvergi í tilskipuninni tiltekið að ríkisábyrgð sé á innistæðutryggingakerfi, og hins vegar er því borið við að við bankahrunið hafi skapast óviðráðanlegar aðstæður á Íslandi, sem ógildi innistæðutilskipunina.

Í athugasemdum sínum halda Bretar og Hollendingar því fram að markmið tilskipunarinnar sé að tryggja innistæður og það hafi einfaldlega ekki verið gert í umræddu tilfelli.

Varðandi meintar óviðráðanlegar aðstæður, segja bæði ríkin að sönnunarbyrðin sé alfarið á Íslandi og engar slíkar sannanir liggi fyrir. Fjárhagslegir erfiðleikar eigi ekki við, þar sem Bretland og Holland hafi boðið Íslandi fjármuni að láni.

Noregur og Liechtenstein taka hins vegar fram í sínum athugasemdum að hvergi í tilskipuninni sé tekið skýrt fram að ríkisábyrgð sé á innistæðutryggingakerfum. Í ljósi þess hve miklar kvaðir á aðildarríki fælust í ríkisábyrgð þyrftu lögin að vera afar skýr að því leyti. Auk þess sé í formála laganna og vinnuskjölum frá setningu þeirra beinlínis tekið fram að tilskipunin feli ekki í sér ríkisábyrgð.

Össur segir einnig merkilegt að Bretland og Holland hafi ein EES-ríkja sent athugasemdir til stuðnings ESA, því að hann hafi skynjað svipaða afstöðu hjá sumum kollega sinna.

„Það hljóta að vera vonbrigði fyrir þá merku stofnun ESA, en ég tel að það sýni að málflutningur okkar fyrir öllum EES-ríkjunum hefur borið árangur og okkur hafi tekist að telja þeim hughvarf.“thorgils@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×