Innlent

Aðalmeðferð frestað um óákveðinn tíma

Frá réttarhöldunum í morgun.
Frá réttarhöldunum í morgun. Mynd/ GVA.
Aðalmeðferð í al-Thani málinu svokallaða var frestað um óákveðinn tíma í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Verjendur Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings og Ólafs Ólafssonar, eins af stærstu eigendum bankans, Ragnar H. Hall og Gestur Jónsson, mættu ekki. Þeir höfðu áður krafist þess af dómara að verða leystir undan skyldum sínum og boðað að þeir myndu ekki mæta í aðalmeðferðina.

Nýir verjendur tvímenninganna mættu, það eru þeir Ólafur Eiríksson, sem var skipaður verjandi Sigurðar Einarssonar, og Þórólfur Jónsson, sem var skipaður verjandi Ólafs Ólafssonar.

Eins og fram hefur komið eru þeir Sigurður, Ólafur, Magnús Guðmundsson og Hreiðar Már Sigurðsson, ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í viðskiptum við Sheik Hamad bin Kalifa al-Thani með 5% hlut í Kaupþingi rétt fyrir hrun. Allir mættu þeir fyrir dóm í morgun, nema Magnús Guðmundsson.

Um 50 vitni munu gefa skýrslu fyrir dómi og er líklega óhætt að segja að þetta sé eitt umfangsmesta dómsmál sem hefur ratað fyrir dómstóla hér á landi.

Björn Þorvaldsson saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, krafðist þess að réttarfarssekt yrði lögð á Gest og Ragnar. Dómari bókaði kröfuna en tók ekki ákvörðun um hana.

Greinilegt er að töluverður áhugi er á málinu en stærsti réttarsalurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur var fullur í morgun. Þar voru saman komnir innlendir og erlendir blaðamenn auk starfsmanna sérstaks saksóknara og laganema.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×