Enski boltinn

Aðal dýrlingurinn í New Orleans styður Southampton í úrslitum deildabikarsins

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Drew Brees heldur með nöfnum sínum á sunnudaginn.
Drew Brees heldur með nöfnum sínum á sunnudaginn. vísir/getty
Southampton fær stuðning fyrir úrslitaleik deildabikarsins á móti Manchester United úr óvæntri átt. Drew Brees, leikstjórnandi New Orleans Saints í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, stendur með Dýrlingunum.

New Orleans-liðið kennir sig við dýrlinga en það er auðvitað gælunafn Southampton eins og flestir fótboltaáhugamenn vita. Bandaríkjamenn þekkja ekkert nema íþróttalið með einhver nöfn og kallar Brees því enska liðið Southampton Saints í myndbandskveðju.

„Þessi skilaboð eru til Dýrlinganna í Southampton og þau koma frá leikstjórnanda Dýrlinganna í New Orleans. Við viljum bara láta ykkur vita að við styðjum ykkur,“ segir Brees.

Manchester United er mun sigurstranglegra liðið fyrir úrslitaleikinn sem fram fer á Wembley á sunnudaginn klukkan 17.30 og er vitaskuld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.

United-liðið tapar varla leik þessa dagana og er í baráttunni í þremur bikarkeppnum auk þess að vera í baráttunni um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta er hin gamla og góða saga af Davíð og Golíat. Southampton tekur á móti Manchester United. United-menn halda kannski að þeir séu bestir og að þeir muni sigra en við trúum á Dýrlingana. Förum nú og klárum þetta,“ segir Drew Brees en myndbandskveðjuna má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×