Skoðun

Að svíkja loforð

Guðmundur Andri Hjálmarsson skrifar
Sannleikurinn er ofboðslega einfalt fyrirbæri. Allt og sumt sem sannleikurinn krefst er sérstök vensl milli orða okkar og heimsins. Nánar til tekið, sannleikurinn er eiginleiki sem setning hefur ef og aðeins ef heimurinn er eins og setningin segir að hann sé. Til að mynda er því setningin „snjór er hvítur“ sönn aðeins ef snjór sé hvítur. Og þetta er allt og sumt! Að segja satt er þess vegna sömuleiðis afar einfalt: Að segja satt er að segja um það sem er að það sé og að segja um það sem er ekki að það sé ekki.

Að segja ósatt er þess vegna einfalt af sömu ástæðu. Að segja ósatt er að segja um það sem er að það sé ekki og að segja um það sem er ekki að það sé. Og þar sem við erum oft og iðulega ekki fullkomlega beintengd við raunveruleikann, í einum eða öðrum skilningi, þá segjum við stundum ósatt þrátt fyrir góðan ásetning.

Að ljúga er öllu erfiðara. Að ljúga og að segja ósatt er tvennt ólíkt. Til að mynda er ómögulegt að ljúga óvart, þrátt fyrir að við segjum öðru hverju ósatt óviljandi. Munurinn milli lyga og ósanninda felst í ásetningi þess sem lýgur: Til þess að ljúga verður ætlun lygarans að vera sú að blekkja viðmælanda sinn. Sá sem segir ósatt, aftur á móti, þarf engan misjafnan ásetning.

Af þessari ástæðu gerum við siðfræðilegan greinarmun á ósannindum og lygum. Öllu að jöfnu eru lygar slæmar, á meðan ósannandi eru auðfyrirgefanlegri: Lygi er yfirveguð tilraun til svika, ósannindi eru oft aðeins afleiðingar, til dæmis, þekkingarfræðilegrar yfirsjónar, merkingarfræðilegrar ónákvæmni eða rökfræðilegra mistaka. Aftur á móti eru lygar ekki skilyrðislaust rangar, því frammi fyrir siðferðilegum afarkostum er lygi oft illskárri kosturinn. En aðeins í slíkum samhengjum erum við tilbúin að segja að lygin hafi verið réttari af tveimur kostum og því réttmæt, en þó ekki rétt.

Að svíkja loforð er enn flóknara. Sá sem gefur loforð er ekki einungis að ýja að því að orð sín séu eða verði sönn, viðkomandi gefur einnig fyrirheit um að gera sitt ýtrasta og besta til þess að hagræða heiminum þannig að orðin verði sönn. Með öðrum orðum, sá sem gefur loforð skuldbindur sig til þess að tryggja að viðeigandi vensl séu eða verði milli orða sinna og heimsins. Sá sem svíkur loforð stígur þess vegna enn lengra en lygarinn: Á meðan lygarinn gefur einungis í skyn að orð sín séu sönn gegn betri vitund, hleypur sá sem svíkur loforð enn fremur frá skuldbindingum sínum.

Frá siðfræðilegu sjónarhorni eru svik loforða því enn lágkúrulegri en lygar. Sá sem svíkur loforð sitt hefur ekki aðeins logið að okkur. Sá sem svíkur loforð sitt hefur enn fremur ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart okkur. En líkt lygum, þá kalla aðstæðurnar stundum á það að við svíkjum loforð okkar: Stundum gerir heimurinn okkur ófyrirsjáanlega erfitt um vik, stundum stöndum við frammi fyrir afarkostum þar sem illskárri kosturinn felst í því að svíkja loforð okkar, og stundum eru loforð okkar, þvert á vilja okkar, í þversögn við sig sjálf. Öllu að jöfnu erum við tilbúin að viðurkenna að slík óhjákvæmileg svik séu réttmæt. Aftur á móti erum við ekki—og réttilega ættum við aldrei að vera—tilbúin að sætta okkur við svik loforða sem hafa ekkert sér til málsvarnar, annað en klaufalega rökvillu um illskiljanlegan ómöguleika sem ekki er.

 

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á greinar@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×