Innlent

700 manns fengu sér amerískan „törkí“ á Offiseraklúbbnum á Vellinum

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar

Það var glatt á hjalla í gamla Offiseraklúbbnum á Keflavíkurflugvelli í dag, þar sem haldið var upp á Thanksgiving eða þakkargjörðarhátíðina í fyrsta sinn frá því að herinn fór.

Það er Ingólfur Karlsson veitingamaður sem fékk hugmyndina. Hann var kokkur hjá bandaríska hernum á Miðnesheiði og hélt þakkargjörðarsiðnum við á veitingahúsi sínu Langbest í Keflavík. Það hefur hinsvegar sprengt af sér húsakynnin fyrir löngu, enda höfðu 700 manns boðað komu sína í Offiseraklúbbinn.

Boðið var upp á kalkún og meðlæti að amerískum sið. Meðal þeirra sem skar steikina var Reynir Guðjónsson, fyrrverandi klúbbstjóri í Offiseraklúbbnum. Hann lét ekkert sérstaklega vel að því að vera kominn í bransann aftur, núna þyrfti hann að vinna.

Kalkúnn var ekki algengur matur á borðum Íslendinga áður fyrr líkt og núna. Það voru einkum starfsmenn herliðsins og nágrannar herstöðvarinnar á Suðurnesjum sem fengu amerískan „törkí“ eða „tyrkja“ eins og hann var stundum kallaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×