Innlent

42% vilja að Huang Nubo fái að leigja

Ríflega fjórir af hverjum tíu Íslendingum vilja leyfa kínverska athafnamanninum Huang Nubo að leigja jörðina Grímsstaði á Fjöllum en tæpur þriðjungur er því mótfallinn, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls sögðust 42 prósent þeirra sem tóku afstöðu mjög eða frekar hlynnt því að leyfa Huang að leigja landið, en 30,7 prósent sögðust því mjög eða frekar andvíg. Um 27,3 prósent sögðust því hvorki hlynnt né andvíg.

Nærri helmingur þeirra karla sem afstöðu tók vildi leyfa Huang að leigja Grímsstaði, um 48,1 prósent. Um 29,4 prósent vildu það ekki. Konur virðast síður vilja að af leigunni verði, 35,7 prósent sögðust því hlynnt en 32,2 prósent andvíg.

Stuðningsmenn Vinstri grænna skera sig úr stuðningsmönnum hinna stóru flokkanna. Alls sögðust 50 prósent þeirra sem sögðust myndu kjósa Vinstri græn yrði gengið til kosninga nú því andvíg að Huang fái að leigja jörðina, en 31,3 prósent voru því mjög eða frekar hlynnt.

Afstaða stuðningsmanna hinna þriggja stóru flokkanna er svipuð. Um 54,2 prósent samfylkingarfólks eru hlynnt því að Huang fái að leigja Grímsstaði en 22,9 prósent eru því andvíg. Alls eru 50,5 prósent sjálfstæðismanna hlynnt því að hann fái að leigja en 26,6 prósent eru á móti. Þá eru 49,1 prósent framsóknarmanna hlynnt leigu en 29,8 prósent andvíg.

Hringt var í 1.326 manns þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki miðvikudaginn 23. maí og fimmtudaginn 24. maí. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) á skalanum 1 til 5 ertu því að kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo fái að leigja land á Grímsstöðum á Fjöllum? Alls tóku 94,6 prósent í afstöðu til spurningarinnar.

brjann@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×