Innlent

15 mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 12 ára stúlku

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vísir/Getty
Hæstiréttur hefur staðfest 15 mánaða fangelsisdóm Héraðsdóms Vestfjarða yfir karlmanni sem sakfelldur var fyrir kynferðisbrot gegn 12 ára gamalli stúlku. Ólafur Börkur Þorvaldsson, hæstaréttardómari, skilaði sératkvæði og taldi að sýkna ætti manninn.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi verið ákærður fyrir tvö brot gegn stúlkunni, annars vegar í janúar 2012 og hins vegar í mars 2012. Héraðsdómur sýknaði manninn af brotinu sem átti að hafa átt sér stað í janúar en sakfelldi hann fyrir brotið frá því í mars.

Við skýrslutöku fyrir dómi kom fram að maðurinn og fjölskylda hans hafi á í mars 2012 búið heima hjá stúlkunni og fjölskyldu hennar, en maðurinn er pabbi frænku stúlkunnar. Þær frænkur hafi veri ð saman uppi í rúmi að læra þegar brotið átti sér stað.

Stúlkan lýsti því fyrir dómi þegar að maðurinn kom inn í herbergið og settist á rúmið. Hann hafi svo farið undir sængina og inn undir buxnastreng stúlkunnar. Hún kvaðst hafa orðið mjög stressuð  en maðurinn hafi ýtt lærum hennar upp og verið með hendurnar á nára hennar.

Maðurinn hafi svo sett fingur sína inn í leggöng stúlkunnar og „fiktað í kynfærum hennar“ eins og það er orðað í dómnum. Stúlkan þorði ekki að segja neitt en á meðan brotið átti sér stað hafi hún og maðurinn verið að skoða hversu marga tengiliði þau væru með í símunum sínum. Þá var maðurinn einnig að tala við dóttur sína, frænku stúlkunnar, sem líka var í rúminu á meðan á brotinu stóð.

Misræmi í framburði mannsins en stúlkan talin trúverðug

Maðurinn neitaði sök í málinu en misræmi var í framburði hans hjá lögreglu annars vegar og fyrir dómi hins vegar.

Hjá lögreglunni sagði maðurinn meðal annars að hann kannaðist við það að stúlkan hefði gist í rúmi með frænku sinni en mundi ekki sérstaklega eftir því kvöldið sem brotið átti sér stað. Þá kvaðst hann hjá lögreglu einnig ekki vera mikið fyrir að snerta fólk; eina dæmið um að hann snerti aðra sé þegar hann knúsi börnin sín.

Fyrir dómi lýsti hann hins vegar mun ítarlegri samskiptum við stúlkuna og dóttur sína umrætt kvöld . Að mati dómsins hafi ekki komið fram trúverðugar skýringar á þessu misræmi í framburði mannsins.

Á móti kemur að dómurinn telur framburð stúlkunnar stöðugan um atvik, bæði fyrir dómi sem og í Barnahúsi þar sem var tekin af henni skýrsla. Þá séu framburðir vitna í meginatriðum í samræmi við atvik eins og stúlkan lýsti þeim fyrir dómi og í Barnahúsi.

Í samræmi við þetta taldi dómurinn nægjanlega sönnun komna fram fyrir því að maðurinn hafi brotið gegn stúlkunni. Var hann því dæmdur í 15 mánaða fangelsi en þar af eru 12 mánuðir skilorðsbundnir.  

Dóminn í heild sinni má sjá hér.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×