Innlent

12 mánaða fangelsi fyrir manndráp af gáleysi

Lovísa Hrund var 17 ára er hún lést.
Lovísa Hrund var 17 ára er hún lést.
Héraðsdómur Vesturlands dæmdi í dag konu í tólf mánaða fangelsi, þar af níu skilorðsbundna, fyrir manndráp af gáleysi. Konan ók bíl undir áhrifum áfengis á Akrafjallsvegi í byrjun apríl síðastliðinn. Bíllinn lenti í árekstri við bíl sem kom úr gagnstæðri átt með þeim afleiðingum að stúlka lést.

Ökumaður bílsins, sem kom úr gagnstæðri átt og konan ók á, var hin 17 ára Lovísa Hrund Svavarsdóttir en Vísir ræddi við föður hennar þegar málið var þingfest í síðustu viku.

Í dómnum kemur fram að konan var undir áhrifum áfengis, og mældist vínandamagn í blóði hennar allt að 2,7 prómillum. Í dómnum segir að konan hafi afdráttarlaust játað brot sitt. Hún hafi sýnt af sér stórfellt og vítavert gáleysi með akstri sínum og olli dauða og verulega eignatjóni.

Þá segir einnig að konan hafi tekið lykla af bíl sínum og sest sjálf undir stýri, eftir að dóttir hennar neitaði að keyra hana til Reykjavíkur. Það beri vott um styrkan og einbeittan vilja til að brjóta gegn áfengislögum.

Konan var dæmd til að greiða tæplega eina og hálfa milljón í sakarkostnað. Svavar Skarphéðinn Guðmundsson, faðir Lovísu Hrundar, sem var ökumaður bílsins sem hún keyrði á, sagði í samtali við Vísi í síðustu viku að dómar vegna ölvunaraksturs séu alltof vægir.

„Mér finnst skilaboðin sem verið er að senda út í þjóðfélagið vera þau að ef þér er illa við einhvern þá skaltu bara fá þér aðeins í tána, setjast upp í bíl og keyra yfir viðkomandi. Það þarf ekkert byssu eða hníf til þess. Þá áttu bara á hættu um árs fangelsi, í stað 16 ára. Bílar eru bara tveggja tonna drápstæki ef ökumaðurinn er ölvaður,“ sagði Svavar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×