Innlent

"Við erum bara orðlaus yfir þessu“

Unnur Pétursdóttir, formaður félags sjúkraþjálfara.
Unnur Pétursdóttir, formaður félags sjúkraþjálfara. visir/stefan
Nýir samningar sjúkraþjálfara hafa enn ekki verið samþykktir af heilbrigðisráðherra þrátt fyrir að hafa fengið frest í tvígang.

Við erum bara orðlaus yfir þessu segir Unnur Pétursdóttir, formaður félags sjúkraþjálfara. Við erum að vinna fyrir um það bil þrjúhundruð sjúkraþjálfara sem koma til með að mæta í vinnuna á morgun og vita ekkert hvar þeir standa.

31. janúar barst félagi sjúkraþjálfara tilboðssamningur frá Sjúkratryggingum Íslands. Í þeim samning fólst hófleg taxtahækkun ásamt ýmsum málum sem áttu að hagræða bæði ríkisstjórninni og sjúkraþjálfurum sem vinna fyrir utan spítala og opinberar stofnanir. Ákvað félagið að samþykkja tilboðið eftir að málið var tekið upp á fjölmennum félagsfundi sjúkraþjálfara.

Þegar búið var að ganga frá samningnum bað ríkið um frest til 6. febrúar til þess að vinna betur í samningnum. Þegar sá frestur rann út bað ríkið um annan frest til 10. febrúar en þá fóru að renna tvær grímur á Unni, formann félagsins.

Okkur þykir það merkilegt og algjörlega óskiljanlegt hvers vegna þau vilji ekki gefa okkur nein svör. segir Unnur

Kostnaður ríkisins er mun meiri við að gera ekki samning við okkur. Þetta eru um 40 þúsund skjólstæðingar sem að þurfa þá sjálfir að fara til sjúkratryggingana að sækja um endurgreiðslu í stað þess að láta sjúkraþjálfarana sjá um þá vinnu.

En eitt helsta atriðið í samningnum snerist um að sjúkraþjálfararnir gætu sjálfir sótt um niðurgreiðslu kostnaðar hjá sjúkratryggingafélaginu í stað þess að láta skjólstæðinga sína greiða fullt verð og sækja síðan sjálfir um endurgreiðslu hjá ríkinu.

Sumir skjólstæðingar okkar eru rúmfastir og þurfa að fá sjúkraþjálfara heim til sín. Okkur finnst fáránlegt að krefja þetta fólk um að fara sjálft að sækja um endurgreiðslu. segir Unnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×