Innlent

„Staðreyndin er sú að hér þrífast spilaklúbbar“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, ætlar á morgun að leggja fram frumvarp sem miðar að því að lögleiða fjárhættuspil á Íslandi. Hann segir það geta styrkt réttarstöðu lögreglunnar í að takast á við ólöglega spilastarfsemi og að frumvarpið skapi grundvöll til að ræða málið á skynsamlegum og vitrænum nótum.

„Megin markmiðið með þessu frumvarpi er að heimila starfsemi spilahalla á Íslandi á grundvelli leyfisveitingar ráðherra,“ segir Willum Þór í fréttum Bylgjunnar klukkan fimm. „Þannig er að hingað til þá hefur öll svona starfsemi verið háð sérleyfum. Happadrætti, Lottó, söfnunarkassar og svo framvegis. Staðreyndin er sú að hér þrífast spilaklúbbar sem að eru ólöglegir og tilgangurinn meðal annars er að uppræta slíka starfsemi.“

Annað markmið frumvarpsins er að bregðast við aukinn eftirspurn í ferðaþjónustu. „Við tölum oft um það að hér þurfi að skapa afþreyingu og þjónustu við ferðamenn og sækja ferðamenn sem skilja eftir meira af gjaldeyri í landinu. Þetta er starfsemi sem myndi fella þau skilyrði.“

Aðspurður hvort hann telji að frumvarpið muni fara í gegnum Alþingi segir Willum: „Já ég hef trú á því. Allavega myndi þetta skapa þroskaða umræðu. Mér finnst við svolítið hafa verið með hausinn í sandinum með þetta og lokað augunum fyrir því að hér þrífist ólögleg spilastarfsemi.“

Frumvarpið tekur mið af dönskum lögum. „Þeirra reynsla af slíkri starfsemi hefur verið mjög góð og þetta hefur skapað tekjur og störf. Ég á von á því að þetta muni falla í góðan jarðveg,“ sagði Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×