Innlent

„Miðbær Reykjavíkur er orðinn stórhættulegur“

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Gengið var í skrokk á Rannveigu á Hressó í gærkvöldi.
Gengið var í skrokk á Rannveigu á Hressó í gærkvöldi. úr einkasafni
Rannveig Tera Þorfinnsdóttir, 22 ára gömul kona, varð fyrir tilefnislausri árás á Hressingarskálanum í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi. Mbl.is greindi fyrst frá þessu.

„Ég er að koma af klósettinu og er að labba í gegnum dansgólfið og dansa smá. Svo er ég allt í einu kýld beint í gagnaugað og ég hníg niður í gólfið og hún kemur þá ofan á mig og heldur áfram að lemja mig. Þá koma dyraverðinir og taka hana ofan af mér og taka mig afsíðis,“ segir Rannveig í samtali við Vísi.

Rannveig hlaut áverka á eyra.úr einkasafni
Árásarmanninum, sem Rannveig segir vera konu yfir þrítugu, var vísað burt af öryggisvörðum og var hún horfin á brott þegar lögregla kom á vettvang.

Rannveig segist ekkert hafa orðið vör við þessa konu fyrr um kvöldið og að þær hafi ekki átt í neinum samskiptum.

„Löggan kom svo og tók stutta skýrslu af mér og þeir fóru síðan með mig upp á bráðamóttöku,“ segir Rannveig en hún ætlar sér að kæra verknaðinn.

Rannveig er töluvert illa leikin eftir líkamsárásina. Hún er bólgin við gagnaugað og með sár í eyranu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Augu hennar og hendur eru bólgnar og auk þess marðist hún á læri við fallið. 

„Miðbær Reykjavíkur er orðinn stórhættulegur og við þurfum að vera meðvituð um hvort annað,“ segir Rannveig að lokum.

Rannveig deildi stöðuuppfærslu á Facebook, sem sjá má hér að neðan. Þar sem hún biðlar til fólks að hafa samband við lögreglu eða hana sjálfa, ef það hefur upplýsingar sem gætu gagnast við rannsókn málsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×