Innlent

„Mannleg mistök“ ollu árekstrinum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Sendibifreiðin ók inn á Öldugranda af Eiðisgranda og lenti framan á fólksbíl sem kom úr gagnstæðri átt.
Sendibifreiðin ók inn á Öldugranda af Eiðisgranda og lenti framan á fólksbíl sem kom úr gagnstæðri átt. Vísir/Baldur Hrafnkell
Þriggja bíla árekstur varð á vegamótum Öldugranda og Eiðsgranda klukkan hálf níu í morgun. Sjúkrabíll, lögreglubíll og lögreglumaður á mótorhjóli komu á vettvang stuttu síðar og var einn farþegi fluttur á slysadeild. Talið er að um minniháttar meiðsl sé að ræða. Aðrir farþegar sluppu vel.

Lögregla rannsakar orsakir slyssins en grunur leikur á að sá sem olli slysinu hafi gleymt sér við aksturinn og að um „mannleg mistök“ sé að ræða eins og lögregla orðaði það. Sendibíll sem ók inn á Öldugranda af Eiðisgranda virðist hafa lent beint á bíl sem kom úr gagnstæðri átt. Þriðji bíllinn, sem keyrði eftir Öldugranda úr norðvestri, lenti á skotti sendibílsins sem stöðvast hafði við áreksturinn.

Áreksturinn var ekki harkalegur samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þar sem hraði bílanna var ekki mikill. Mikið sér á bílunum eins og sjá má á meðfylgjandi myndum en þó þurfti ekki að notast við kranabíl til þess að fjarlægja þá af slysstað.

Umferð er nú komin aftur í samt lag á Öldugranda en tafir urðu á umferð á meðan lögregla sinnti farþegum og leysti úr málum á slysstað.

Vísir/Baldur Hrafnkell
Vísir/Baldur Hrafnkell
Vísir/Baldur Hrafnkell



Fleiri fréttir

Sjá meira


×