Skoðun

"Hnappurinn“ – byltingarkennd einföldun ársreikninga

Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifar
Eitt af áhersluatriðum ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu hefur verið að einfalda regluverk og bæta starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja. Ein stærsta breytingin sem gerð hefur verið fyrir lítil fyrirtæki er „Hnappurinn“, en það er heiti yfir rafræn skil ársreikninga. Fyrir skömmu fól ég ríkisskattstjóra að útfæra og framkvæma vinnu við að koma á rafrænum skilum ársreikninga fyrir örfyrirtæki til þess að minnka kostnað þeirra og bæta viðskiptaumhverfi eins og kallað hafði verið eftir.

Einfaldari skil ársreikninga hjá litlum fyrirtækjum, lægri umsýslukostnaður og bætt viðskiptaumhverfi voru einmitt helstu markmiðin með breytingum á lögum um ársreikninga sem ég lagði fram á Alþingi á vorþingi og samþykkt voru fyrir þinghlé. Breytingarnar taka til yfir 80% íslenskra fyrirtækja og eru þau nefnd örfyrirtæki til aðgreiningar. Samkvæmt lögunum eru örfyrirtæki skilgreind sem þau fyrirtæki sem uppfylla a.m.k. tvö af þremur skilyrðum; að vera með efnahagsreikning upp á 20 milljónir króna eða minna, ársveltu undir 40 milljónum króna og ekki meira en þrjú ársverk að meðaltali.

Forsvarsmenn örfyrirtækja geta valið að gefa samþykki sitt fyrir því að lykiltölur úr skattframtali fyrirtækisins verði sendar ársreikningaskrá sem fullgildur ársreikningur til birtingar. Skoðunarmaður og endurskoðandi þurfa ekki að yfirfara þá reikninga og skýrsla stjórnar þarf ekki að fylgja með. Þetta einfaldar skil fyrir um 80% fyrirtækja á Íslandi og lækkar kostnað þeirra verulega. Framkvæmdin er einföld og nægir að haka í þar til gerðan reit á skattframtalinu (Hnappinn) og tölvukerfi ríkisskattstjóra sér síðan sjálfvirkt um að útbúa ársreikning sem byggir á fyrirliggjandi gögnum. Með þessu er stigið stórt skref í þá átt að bæta skil á ársreikningum. Með lagabreytingunni verður umhverfi viðskiptalífsins gegnsærra, óvirkum félögum mun vonandi fækka og heildaryfirsýn yfir markaðinn verður skýrari. Þetta er ein af forsendunum fyrir því að hægt sé að ráðast með markvissum hætti gegn kennitöluflakki.

Nýju lögin styrkja einnig sektarheimild ársreikningaskrár þannig að ferlið við að knýja fram skil á ársreikningum tekur styttri tíma og verður einfaldara í framkvæmd en verið hefur. Enn fremur er ferlið varðandi slit félaga hafi ársreikningi ekki verið skilað stytt og heimild til að krefjast slita færð frá ráðherra til ársreikningaskrár.

Ég leyfi mér að fullyrða að þessi breyting sé jafn mikil bylting fyrir atvinnulífið og var fyrir okkur einstaklinga þegar skattframtölin urðu rafræn á sínum tíma. „Hnappurinn“ verður virkur fyrir skil á ársreikningi fyrir rekstur ársins 2016.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×