Fótbolti

„Hart er Rolls Royce markvörður“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Joe Hart er að spila vel á Ítalíu.
Joe Hart er að spila vel á Ítalíu. vísir/getty
Joe Hart, landsliðsmarkvörður Englands, er að slá í gegn hjá ítalska A-deildarliðinu Torino þangað sem hann var lánaður frá Manchester City.

Pep Guardiola vildi ekki vera með Hart í markinu og sótti þess í stað Claudio Bravo, markvörð Barcelona. Hann sendi Englendinginn á lán til Ítalíu þar sem hann hefur haldið sex sinnum hreinu í tíu leikjum.

Torino lenti 1-0 undir um helgina en vann Palermo, 4-1. Það er nú búið að vinna þrjá leiki í röð og eru samherjar Hart heldur betur ánægðir með komu enska markvarðarins.

Á sama tíma hefur Guardiola fengið gagnrýni fyrir að veðja á Bravo en Sílemaðurinn hefur gert nokkur slæm mistök. Nú síðast lét hann reka sig út af í Meistaradeildarleik gegn Barcelona í vikunni. Leikur sem City tapaði, 4-0, á Nývangi.

„Hart er búinn að breyta andrúmsloftinu í búningsklefanum. Okkur líður eins og við vorum að kaupa Rolls Royce. Sjálfstraustið í liðinu er svo svakalegt núna,“ segir Joel Obi, nígerískur samherji Hart hjá Torino.

„Hart leggur svo mikið á sig og mætir einbeittur á hverjum degi. Maður heldur stundum að hann sé búinn að vera hluti af þessu félagi í mörg ár. Sumum finnst að illa hafi verið komið fram við hann hjá City en Hart vill enga samúð. Hann vill bara spila fótbolta,“ segir Joel Obi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×