Innlent

"Framtíðin ekki björt í íslenska vísindageiranum“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
„Framtíðin er ekki björt í íslenska vísindageiranum.“ Þetta segir einn fremsti vísindamaður landsins. Í nýjum fjárlögum er fallið frá tæplega þrettán hundruð milljóna króna framlagi í vísindi og rannsóknir. Hann segir ríkisstjórnina ganga þvert á stefnu sína í vísindamálum.

Helst eru það þrjú verkefni sem finna fyrir þessu en öll eru þau tengd fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar.

Fallið er frá 200 milljóna króna hækkun í framlagi til Markáætlunar á sviði vísinda og tækni en markmið áætlunarinnar er að efla grunnrannsóknir.

Þá er fallið frá 265 milljón króna framlagi af fyrirhuguðum 550 milljónum sem áttu að renna í Rannsóknar- og tæknisjóði RANNÍS, þessir sjóðir eru hryggjarstykki íslenskra vísinda- og tæknirannsókna.

Í þriðja lagi fellur niður 800 milljóna króna fjárheimild sem ætluð var í byggingu Húss íslenskra fræða.

Aðrar vísindastofnanir sem fá minna framlag eru Tilraunastöð Háskólans að Keldum (12 m.kr.), Háskóla- og rannsóknarstarfsemi (58,3 m.kr), Hafrannsóknarstofnun (21,8 m.kr) og Nýsköpunarmiðstö (8 m.kr).

Gert er ráð fyrir að framlög í Rannsóknarsjóð og tæknisjóð minnki nokkuð á næstu árum. Um hundrað milljónir árið 2015 og 180 milljónir árið eftir.

Vonast er til að hægt verði að efla þessa sjóði með aukinni fjárfestingu lífeyrissjóða í nýsköpunarverkefnum. Engu að síður þykir þessi þróun ekki heillavænleg meðal íslenskra vísindamanna enda er margra ára uppbygging doktorsnámsins hér á landi í húfi.

„Þetta er ekki björt framtíð og þá sérstaklega ekki fyrir unga fólkið sem er að koma heim úr námi og vill hasla sér völl. Það sér að þeirra tækifæri eru að hverfa og á næstu tveimur árum munu enn fleiri möguleikar hverfa. Þannig að þetta er ekki góð framtíð sem við sjáum hér,“ segir Eiríkur Steingrímsson, erfðafræðingur.

Eiríkur bendir á að fjárfesting í grunnrannsóknum sé afar ódýr en sé á sama tíma einhver verðmætasta nýsköpun sem völ er á.

„Í rauninni gengur allur þessi niðurskurður í rannsóknarsjóði þvert gegn stefnu ríkisstjórnarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×