Innlent

„Engin spurning að verslunin lækkar verð eftir tollasamning við ESB“

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra. vísir/stefán
„Þetta er klárlega mjög jákvætt fyrir íslenska neytendur,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Ísland og Evrópusambandið undirrituðu í gær samning sem mun fela í sér að báðir aðilar felli niður tolla í allmörgum tollflokkum. Þá munu báðir aðilar auka verulega tollfrjálsan innflutningskvóta á ýmsar tegundir af kjöti og ostum.

„Það sem er jákvætt við þetta er að þetta eru gagnkvæm niðurfelling og þá er þetta sóknartækifæri fyrir íslenskan landbúnað,“ segir hann.

Tollar á unnar landbúnaðarvörur munu falla niður að jógúrti undanskildu. Unnar landbúnaðarvörur eru vörur á borð við pitsur, pasta, bökunarvörur og fleira. Tollar á óunnum landbúnaðarvörum lækka einnig.

Íslensk verslun hefur lengi barist fyrir samningum af þessum toga. „Ég vona því að hún [verslunin] taki þessu fagnandi og skili þessum lækkunum til neytenda og taki þannig þátt í að halda niðri vöruverði í landinu og verðbólgu.“

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að verslunin muni standa við sitt. „Þetta er mjög jákvætt skref og mun verða neytendum til hagsbóta,“ segir hann. „Það er náttúrulega engin spurning að verslunarfyrirtækin munu skila þessum tollalækkunum áfram til neytenda enda mikið hagsmunamál fyrir fyrirtæki sem eru í innflutningi á matvöru.“
Vonast er til að samningarnir taki gildi í árslok 2016 eða ársbyrjun 2017.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×