Innlent

„Einkaspítali gæti orðið veruleg ógn við heilbrigðiskerfið“

Ásgeir Erlendsson skrifar
Umfangsmikil starfsemi einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ gæti orðið veruleg ógn við heilbrigðiskerfið, að mati yfirlæknis á hjartadeild Landspítalans. Mikilvægt sé að standa vörð um þá uppbyggingu sem þegar sé hafin í heilbrigðiskerfinu.

Davíð O. Arnar, Karl Andersen og Ingibjörg Guðmundsdóttir yfirlæknar á hjartadeild Landspítala rituðu grein í Morgunblaðið þar sem farið er yfir möguleg áhrif byggingar á stóru einkareknu sjúkrahúsi í Mosfellsbæ. Í síðustu viku bárust fréttir af því að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hefði samþykkti að úthluta félaginu MCPB ehf, sem er að stærstum hluta í eigu hollenska félagsins Burbanks Holdings lóð undir sjúkrahúsið þar sem ráðgert er að um 1000 manns starfi.

„Það er mikilvægt að standa vörð um íslenska heilbrigðisþjónustu, halda áfram þeirri uppbyggingu sem er þegar hafin og styðja við íslenskt þjóðarsjúkrahús sem er fyrir alla landsmenn.“ Segir Ingibjörg.

Gæti orðið veruleg ógn við heilbrigðiskerfið.

Ingibjörg segir að svo umfangsmikil starfsemi líkt og ráðgert er að verði á hinum nýja spítala gæti orðið veruleg ógn við heilbrigðiskerfið hér á landi.

„Það gæti verið það. Það er hæpið að geta flutt starfsmenn til og frá til allra verka. Það er erfitt að segja. Það er mikilvægara að við stöndum saman í íslensku heilbrigðskerfi og höldum áfram öflugri teymisvinnu og vinnum saman í góðri sátt.“

Heilbrigðiskerfið á viðkvæmum stað.

Hún bendir á að heilbrigðiskerfið sé á viðkvæmum stað í endurreisnarferli og því sé mikilvægt að stíga varlega til jarðar.

„Það virðist vera þverpólítísk samstaða um að byggja upp heilbrgiðiskerfið hérna sem vissulega laskaðist nokkuð eftir hrun. Við sjáum að það er nokkur áskókn nýrra lækna  til landsins og það er mjög mikilvægt að við höldum þeirri uppbyggingu áfram. “ Segir Ingibjörg Guðmundsdóttir.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×