Innlent

„Ég hugsa að það muni rétt skríða í gegn“

Þorbjörn Þórðarson skrifar
„Ég hugsa að það muni rétt skríða í gegn. Ég hef trú á því,“ segir Vilhjálmur Árnason um áfengisfrumvarpið sem afgreitt var úr nefnd til annarrar umræðu í gær.

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis afgreiddi áfengisfrumvarpið til annarrar umræðu með tveimur breytingum.

Áfengisfrumvarpið afnemur einkaleyfi ÁTVR á sölu áfengis og opnar á sölu áfengis í smásöluverslunum.

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar gerði þær breytingar á frumvarpinu að sett var inn ákvæði um að sveitarstjórn verði heimilt að setja það skilyrði að áfengi skuli aðgreint frá öðrum vörum í verslun og ráðherra setji nánari kröfur um aðgreininguna í reglugerð.

Þá gerði nefndin breytingu á hluta þess áfengisgjalds sem fer í forvarnir. Í gildandi lögum rennur 1 prósent þess í Lýðheilsusjóð en breytingin gerir ráð fyrir að 2,5 prósent gjaldsins fari í sjóðinn og 2,5 prósent til ríkislögreglustjóra til að sinna eftirliti með framkvæmd laganna.

Vilhjálmur Árnason hefur fulla trú á að frumvarpið gangi til þriðju umræðu og atkvæðagreiðslu.

Heldurðu að þú hafir meirihluta fyrir þessu í þinginu? „Þetta dansar einhvers staðar á línunni. Það eru einhverjir óánægðir ennþá,“ segir Vilhjálmur.

Ef þú ættir að veðja, hvað myndirðu veðja? „Ég hugsa að það muni rétt skríða í gegn. Ég hef trú á því.“ 

Ólína Þorvarðardóttir
Ólína Þorvarðardóttir situr í allsherjar- og menntamálanefnd fyrir Samfylkinguna. Hún segir að í málinu takist á sjónarmið um verslunarfrelsi annars vegar og velferð hins vegar.

„Það er enginn vafi á því að þeir sem aðhyllast jafnaðarstefnu og félagslegt réttlæti þeir velja auðvitað velferðarsjónarmiðin þó ég skilji ég vel að margir þingmenn hafi verið tvístígandi í málinu fram að það þessu. Ég var það til dæmis sjálf.“

Ólína segir sjálfsagt að hleypa málinu í atvæðagreiðslu.„Ég hef alltaf verið mótfallin fundatæknilegum bolabrögðum þannig að ég geri enga athugasemd við að málið komist í eðlilega umfjöllun hér í þinginu og afstaða þingsins komi fram.“


Tengdar fréttir

Ríkisstjórn með lýðheilsu eða á móti?

Ríkisstjórnin boðaði bætta lýðheilsu þegar hún tók við völdum. Lýðheilsunefnd var stofnuð þar sem lýðheilsa og forvarnarstarf er sagt vera meðal forgangsverkefna ríkisstjórnarinnar. Af einhverjum ástæðum hefur Sjálfstæðisflokkurinn tekið stefnu gegn forvarnarstarfi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×