Lífið

„Ég held að Ásta þurfi ekki að segja af sér þingmennsku“

Birgir Olgeirsson skrifar
Forsetahjónin ásamt grænlensku sundbörnunum.
Forsetahjónin ásamt grænlensku sundbörnunum. Mynd/Hrafn Jökulsson
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, er ekki sú eina sem hefur gert grín í Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, því forsetafrúin Eliza Reid gerði nákvæmlega sama grín í opinberri móttöku á Bessastöðum 5. september síðastliðinn.

Þann dag tóku forsetahjónin á móti ellefu ára gömlum börnum frá austur Grænlandi sem komu hingað til lands til að læra að synda og kynnast íslensku samfélagi. Var sú heimsókn barnanna á vegum Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, og skákfélagsins Hróksins.

„Það var bara létt og skemmtilegt stemning eins og ég held að sé jafnan á Bessastöðum hjá þessum hjónum,“ segir Hrafn Jökulsson, formaður Hróksins, sem tók meðfylgjandi mynd.

Hann deildi henni á Facebook í dag til að sýna fram á að Ásta Guðrún hefði kannski ekki farið langt yfir strikið þegar hún setti svokölluð kanínueyru á forsetann við myndatöku á Bessastöðum í gær.

Andrés Ingi Jónsson, Guðni Th. Jóhannesson og Ásta Guðrún Helgadóttir á Bessastöðum í gær.Mynd/Andrés Ingi Jónsson
„Ég held að Ásta þurfi ekki að segja af sér þingmennsku. Ég trúi ekki öðru en að þjóðin finni sér einhver verðugri mál að rífast um en glens á Bessastöðum,“ segir Hrafn í samtali við Vísi.

Ásta Guðrún hefur verið gagnrýnd af fjölmörgum fyrir þetta uppátæki en hún greindi frá því í samtali við Vísi fyrr í dag að myndin hefði verið sviðsett og Guðni hefði tekið þátt í gríninu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×