Innlent

„Ég ber mikla virðingu fyrir Evrópusambandinu og Ísland er greinilega evrópskt ríki"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Gunnar Bragi á fundinum í Hörpu í dag.
Gunnar Bragi á fundinum í Hörpu í dag. Vísir/KJ
„Ég ber mikla virðingu fyrir Evrópusambandinu og Ísland er greinilega evrópskt ríki, með sömu viðmið og gildi og Evrópubúar,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra á fundi sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins sem nú fer fram í Hörpu.

Í ræðu sinni á fundinum rakti Gunnar Bragi ástæður þess að ríkisstjórnin lagði til að aðildarumsókn Íslands í ESB yrði dregin til baka.

Hann sagði að skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafi sannað að hagsmunum Íslands væri betur borgið fyrir utan Evrópusambandið. Gunnar Bragi kvartaði einnig undan pressu sem Evrópusambandið legði á ríki sem sækja um aðild.

Hann sagði einnig að það ætti ekki að koma neinum á óvart að umsóknin yrði dregin til baka. Hann minnti á að í aðdraganda kosninganna í vor og í sumar hafi meðlimir ríkisstjórnarinnar talað um að Ísland ætti ekki að ganga í Evrópusambandið.

Gunnar Bragi beindi orðum sínum einnig að Bretum og Hollendingum.

„Það er greinilegt að ákveðin ríki notuðu aðildarumsókn Íslendinga sér í hag í tvíhliða deilum, eins og í Icesave-málinu.“

Utanríkisráðherra sagði að EES-samningurinn hafi reynst Íslendingum afar vel. „Hann á sér 20 ára farsæla sögu,“ sagði Gunnar Bragi og bætti við að hann yrði grunnurinn að samskiptum Íslendinga og Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×