Innlent

„Drengurinn minn er ekki rasisti“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Atvikið átti sér stað í Breiðholtinu í gær.
Atvikið átti sér stað í Breiðholtinu í gær. vísir/gva
Móðir drengsins sem lenti í áflogum við jafnaldra sinn í Breiðholtinu í gær segir að sonur sinn hafi ráðist á hinn 12 ára gamla Davíð Sebastian Ert í sjálfsvörn. Hann hafi verið króaður af af hópi jafnaldra sinna sem hafi krafist þess að drengurinn myndi fljúgast á við þau. Drengurinn er með taugaþroskunarröskun og hafi orðið hræddur. Vísar hún því á bug að sonur hennar sé haldin einhverskonar kynþáttafordómum.

Stefanía Rut Kondrup er móðir drengsins og lýsir hún atvikinu sem átti sér stað í gær á þennan hátt:

„Þau eru mörg í hóp, kannski 12-13 og gera aðsúg að honum. Hann er einn á móti þeim öllum og þau ætluðu ekki að hleypa honum í burtu nema hann myndi slást við þau. Strákurinn minn er með taugaþroskunarröskun og liggur kannski vel við höggi, félagslegar gáfur hans eru kannski ekki upp á marga fiska. Hann verður hræddur og bregst við. Hann hleypur svo heim til okkar og hópurinn kemur í humátt á eftir honum.“

Komust inn á stigaganginn

Stefanía Rut segir að hópurinn hafi brotið rúðu á stigaganginum heima hjá þeim og neitað að yfirgefa svæðið fyrr en barnsfaðir Stefaníu hótaði að hringja á lögregluna.

„Þau komast inn á stigaganginn hjá okkur og byrja að öskra á mig, gefa mér puttann og eru með ógnandi tilburði. Þau brjóta rúðu þarna og fara ekki fet fyrr en barnsfaðir minn hótar að hringja á lögregluna.“

Stefanía Rut vísar því á bug að sonur hennar hafi verið með fordóma gagnvart útlendingum líkt og Sylwia Bjarnadóttir, móðir Davíðs Sebastians, lýsir í frásögn sinni af atvikum málsins.

„Strákurinn minn gengur í skóla sem börn af margskonar uppruna ganga í, margir af bestu vinum hans eru t.d. frá Póllandi. Mér þykir það mjög skrýtið hafi hann allt í einu sýnt af sér einhverja kynþáttafordóma og nota einhver orð sem ég hef aldrei heyrt hann nota. Drengurinn minn er ekki rasisti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×