Fótbolti

Zlatan: Verð áfram ef þeir skipta Eiffelturninum út fyrir styttu af mér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic fékk skiljanlega mikla athygli eftir leikinn í gær.
Zlatan Ibrahimovic fékk skiljanlega mikla athygli eftir leikinn í gær. Vísir/Getty
Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic varð í gær franskur meistari með Paris Saint-Germain og er þetta fjórða árið í röð sem hann vinnur þennan titil með félaginu.

Zlatan Ibrahimovic tilkynnti það jafnframt í viðtölum eftir 9-0 sigur Paris Saint-Germain á Troyes,  þar sem Zlatan skoraði fernu, að þetta væri hans síðasta tímabil í París.

Samningur Zlatan Ibrahimovic og PSG rennur út í lok tímabilsins og hann hefur verið orðaður við ensku úrvalsdeildina að undanförnu.

„Eins og staðan er núna þá verð ég ekki áfram hjá PSG á næsta tímabili. Ég á samt enn eftir einn og hálfan mánuð hérna," sagði Zlatan Ibrahimovic í viðtali við beIN Sports sjónvarpsstöðina. ESPN sagði frá.

„Ef þeir skipta út Eiffelturninum út fyrir styttu af mér þá lofa ég því að vera áfram," sagði Zlatan síðan kíminn.

Al-Khelaifi, forseti PSG, notaði tækifærið í viðtali við beIN Sports og ítrekaði það að félagið vilji halda Zlatan sem hefur skorað 101 deildarmark á þessum fjórum tímabilum með liðinu.

„París er töfrandi og það fylgja líka töfrar Ibra. Við viljum að Zlatan verði áfram hjá okkur og við munum tala við hann," sagði Al-Khelaifi.

Fjögur mörk hjá Zlatan Ibrahimovic í gær þýða að Zlatan Ibrahimovic hefur skorað 27 deildarmörk á tímabilinu eða þrettán mörkum meira en næsti maður sem er liðsfélagi hans Edinson Cavani.

Zlatan Ibrahimovic skoraði fjögur mörk og fékk að eiga boltann í leikslok.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Zlatan afgreiddi Chelsea | Sjáðu mörkin

PSG er komið í átta liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 1-2 sigur á Chelsea á Stamford Bridge í kvöld. Zlatan Ibrahimovic stal senunni í leiknum.

PSG franskur meistari eftir 9-0 sigur

Paris Saint Germain er franskur meistari fjórða árið í röð eftir ótrúlegan, 9-0, sigur á Troyes á útivelli í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×