Innlent

Yrði tíunda stærsta sveitarfélagið

aðgerðir kynntar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Eygló Harðardóttir voru ánægð með aðgerðir ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í gær.fréttablaðið/gva
aðgerðir kynntar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Eygló Harðardóttir voru ánægð með aðgerðir ríkisstjórnarinnar á blaðamannafundi í gær.fréttablaðið/gva
Þær 2.300 félagslegu leiguíbúðir sem ríkisstjórnin hyggst stuðla að því að verði reistar yrðu tíunda stærsta sveitarfélag landsins ef þær væru reistar saman sem ein byggð. Þetta benti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á þegar hann kynnti aðgerðirnar í gær.

„Aðkoma ríkisins fælist þarna bæði í stofnstyrkjum og vaxtaniðurgreiðslu, en til þess að setja þetta í samhengi þá er þetta álíka mikill fjöldi íbúða eins og allar íbúðir í Borgarnesi og í öllum bæjum á Snæfellsnesi samanlagt. Borgarnes, Stykkishólmur, Grundarfjörður, Ólafsvík og svo framvegis. Það má líka segja að á næstu fjórum árum séu menn að byggja félagslegar íbúðir sem nemi öllum Ísafirði og Egilsstöðum.“

Sigmundur Davíð segir að við breytingarnar í skattamálum hafi verið horft til þess að tekið væri á kjörum hinna lægst settu í kjarasamningum, en ríkið kæmi í auknum mæli að því að bæta kjör millitekjufólks.

„Ástæðan fyrir því að þetta er skynsamleg verkaskipting er sú að þeir sem eru með lægstar tekjur greiða minnst til ríkisins og í sumum tilfellum ekki neina skatta til ríkisins. Þar af leiðandi er þar svigrúm fyrir ríkið til þess að koma inn í og bæta kjörin mjög takmarkað,“ segir Sigmundur Davíð.

Með því takist að vinna á fátæktargildru „þar sem menn festast í lágum tekjum og svo eru jaðaráhrifin við það að komast upp úr því svo mikil að menn sitja fastir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×