Innlent

VR undirbýr verkfallsaðgerðir

Bjarki Ármannsson skrifar
„Við sjáum því miður fátt annað í stöðunni en að hefja atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR.
„Við sjáum því miður fátt annað í stöðunni en að hefja atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR. Vísir
Undirbúningur að verkfallsaðgerðum félagsmanna VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna (LÍV) er hafinn. Þetta var ákveðið á fundi stjórnar og trúnaðarráðs VR sem lauk nú fyrir stuttu. Í VR eru alls um þrjátíu þúsund félagsmenn og um fimm þúsund í LÍV.

„Við sjáum því miður fátt annað í stöðunni en að hefja atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun,“ segir Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, í tilkynningu. Viðræðum VR og LÍV við Samtök atvinnulífsins í Karphúsinu var slitið um klukkan þrjú í dag án niðurstöðu.

„Stéttarfélög taka ekki ákvörðun um undirbúning aðgerða af léttúð. Það vill enginn fara í verkfall og við boðum ekki til þess nema enginn annar kostur sé í stöðunni. Og í dag sjáum við engan annan kost.“

Búast má við að undirbúningur um atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun taki nokkra daga en að hún geti hafist í annarri viku maímánaðar. Stefnt er að því að aðgerðir hefjist svo fyrir mánaðamótin maí/júní, komi til þess.


Tengdar fréttir

VR sleit einnig kjaraviðræðum

Allt stefnir í verkfall um 35 þúsund félagsmanna VR og Landssambands íslenskra verslunarmanna í lok maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×