Innlent

Voru að koma konu til bjargar þegar mennirnir réðust á þá

GIssur Sigurðsson skrifar
Árásin átti sér stað í Engihjalla í Kópavogi.
Árásin átti sér stað í Engihjalla í Kópavogi. Vísir/Vilhelm
Tveir karlmenn eru nú í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að hafa ráðist á tvo lögreglumenn, sem voru að koma konu til hjálpar, eftir að annar karlanna, eða jafnvel báðir, höfðu ráðist á hana. 

Það var snemma í gærkvöldi að íbúar í fjölbýlishúsi í Kópavogi hringdu á lögreglu og tilkynntu um neyðaróp frá konu í tiltekinni íbúð í húsinu. Þegar lögregla kom á vettvang til að stilla til friðar,  brugðust karlarnir báðir ókvæða við og réðust að lögreglumönnum sem tókst eftir nokkrar ryskingar að yfirbuga mennina og fjarlægja þá í járnum. 

Annar lögreglumannanna, sem tók þátt í aðgerðinni, meiddist og þurfti að leita aðhlynningar á slysadeild og verður frá vinnu í dag, en hinn slapp ómeiddur. Fólkið er allt af erlendum upruna og hefur verið búsett hér á landi um árabil, en í íbúðinni voru tveir karlar og tvær konur. 

Að sögn Gunnars Hilmarssonar aðalvarðstjóra vildu konurnar í fyrstu ekkert tjá sig við lögreglu um málið, en nánar verður rætt við þær í dag. Íbúum í öðrum íbúðum í húsinu mun hafa orðið illa brugðið við neyðaróp konunnar.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×