Innlent

Vonast eftir niðurstöðu í dag

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Starfsmenn lögðu niður vinnu 8. apríl og urðu þá tafir á millilandaflugi.
Starfsmenn lögðu niður vinnu 8. apríl og urðu þá tafir á millilandaflugi. vísir/anton
Samninganefndir Isavia og Félags flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) sitja sáttafund hjá ríkissáttasemjara í dag og freista þess að komast að samkomulagi og afstýra þannig vinnustöðvun FFR í nótt. Kristján Jóhannsson, formaður FFR, segist vonast til þess niðurstaða náist fyrir kvöldið.

„Við erum að vinna í þessum samningi en þetta er á því stigi að það kannski borgar sig ekki að segja of mikið,“ segir Kristján í samtali við Vísi.

Aðspurður hvort hann sé vongóður um að samningar náist segist Kristján ekki þora að segja til um það. „Ég hef alltaf sagt það að ef við erum að tala saman er einhver von um að við náum saman. En það dregur kannski til tíðinda eftir klukkan 17.“

Vinnustöðvunin í nótt mun standa yfir í fimm klukkustundir ef til hennar kemur en starfsmenn lögðu niður vinnu 8. apríl og urðu þá tafir á millilandaflugi. Þriðja vinnustöðvunin verður svo á föstudagsmorgun en verði ekki samið fyrir 30. apríl hefst verkfall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×